Fjallkonan
Fjallkonan er þjóðartákngervingur Íslands. Þjóðartákngervingar eru manngervingar þjóðar eða lands. Frægir erlendir þjóðartákngervingar eru Sámur frændi, tákngervingur Bandaríkjanna og Britannía, tákngervingur Bretlands.
Saga Fjallkonunnar
[breyta | breyta frumkóða]Erlendur bakgrunnur
[breyta | breyta frumkóða]Á rómantíska tímabilinu kom upp í Evrópu hugmyndin um konu sem þjóðartákn. Á þessum tíma urðu til frægar táknmyndir eins og Híbernía, þjóðartáknmynd Írlands, Maríanne, þjóðartáknmynd Frakklands, og Germanía, þjóðartáknmynd Þýskalands. Hugmyndin um kventákngerving lands og þjóðar var þó ekki ný af nálinni en eldri dæmi eru til dæmis Róma, tákngervingur Rómaborgar á tímum Rómaveldis, og Britannía. Ólíkt kventákngervingum frá síðari öldum, þar á meðal Fjallkonunni, voru kventákngervingar fyrri aldar jafnan gyðjur. Kventákngervingar landa og þjóða hafa stundum verið tengdir við hugmyndina um móðir jörð.[2]
Þróun fjallkonuímyndarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Bjarni Thorarensen
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta þekkta notkun orðsins fjallkona er í kvæði Bjarna Thorarensen (1786–1841) Íslands minni:[3]
- Eldgamla Ísafold,
- ástkæra fósturmold,
- Fjallkonan fríð!
- mögum þín muntu kær
- meðan lönd gyrðir sær
- og guma girnist mær,
- gljár sól á hlíð.[4]
Kvæðið var fyrst prentað árið 1819 en það er talið samið á Kaupmannahafnarárum Bjarna 1802–1811.[5] Eins og í kvæðum margra íslenskra Hafnarstúdenta á rómantíska tímabilinu, þar á meðal þjóðskáldinu Jónasar Hallgrímssonar,[6] birtist í Íslands minni heimþrá eftir fósturjörðinni. Í flestum útgáfum kvæðisins hefur sjöttu ljóðlínu kvæðisins breytt úr „og guma girnist mær“ í „gumar girnast mær“ en þann leshátt er aðeins að finna í einu handriti kvæðisins af fjórum sem gildi hafa.[7] Í grein sem birtist í greinasafninu Speglanir: Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu (2000) fjallaði Helga Kress um þessa breytingu sem er ekki í samræmi við eiginhandrit Bjarna. Hún telur að fyrri útgefendum og ýmsum öðrum karlfræðimönnum, þar á meðal Sigurði Nordal, hafi ekki þótt viðeigandi að fjallkonan væri gerandi ljóðsins og að hún girnist karla, eðlilegra væri að karlar girntust hana.[8] Helga telur að ekki sé um að ræða vísun í kynferðislega löngun fjallkonunnar í karla heldur sé fjallkonan sem móðir sem elskar syni sína og vill fá þá aftur heim frá útlöndum.[9]
Eggert Ólafsson
[breyta | breyta frumkóða]Hugmyndin um konu sem tákn Íslands er þó eldri en kvæði Bjarna Thorarensens. Elsta varðveitta dæmið um hugmyndina birtist samhliða kvæði Eggerts Ólafssonar Ofsjónir við jarðarför Lóvísu Drottningar 1752. Með kvæðinu fylgdi myndræn framsetning ofsjónarinnar, gerð af Eggerti sjálfum. Myndin sjálf hefur glatast enda gat Eggert ekki fengið hana prentaða vegna fjárskorts. Hins vegar er varðveitt löng og nákvæm lýsing af myndinni. Í fjórða kafla lýsingarinnar er kventáknmyndinni lýst:
Leingst uppí dalnum, þar sem áin kemr fram, sitr kona nokkur á steini; yfir höfði henni stendr skrifað Island; hún hefir yfir sér svarta kvennskykkju þraunga; undir stuttan niðrhlut, og silfrbelti um sig, þunna skó á fótum, lítinn stinnan kraga um hálsinn, hulið höfuð með svörtu silki, og kvennhatt með silfrskildi; þessi kona hefir með öllu sorgliga ásýnd, styðr vinstri hönd undir kinn og horfir upp til himins.[10]
Við andlát Friðriks V Danakonungs árið 1766 samdi Eggert drápu og fylgdi henni einnig myndræn framsetning. Sú mynd hefur varðveist sem og útskýring Eggerts á myndmálinu. Konan, sem Eggert kallar ýmist Ísland eða íslenskuna, er í sams konar klæðum og þeim sem lýst er í Ofsjónum; dökkri síðhempu, með trafafald á höfði og barðastóran hatt þar ofan á.[11] Eggert virðist ekki hafa notað heitið Fjallkonan en í lýsingu á 1766 myndinni nefnir hann hana móður. Mynd Eggerts má þó telja elstu myndrænu framsetninguna á kventákngerving Íslands.
Gunnlaugur Oddsson
[breyta | breyta frumkóða]Á næstu áratugum eftir að kvæði Bjarna Thorarensen birtist fetuðu mörg ljóðskáld í fótspor hans, meðal annars Sigurður Breiðfjörð, Jónas Hallgrímsson og Jón Thoroddsen. Gunnlaugur Oddsson, síðar dómkirkjuprestur, mun hafa fyrstur klætt Fjallkonuna í faldbúning.[2] Fjallkona hans birtist í skálarkvæði ort fyrir minni Valgerðar Jónsdóttur biskupsfrúar í Kaupmannahöfn á jólum árið 1824. Í fyrstu tveimur erindum segir:
- Röðulkrýnt (sá ég) roskið sprund
- Reifað í hélu mjöll;
- Hvirflaði log um ljófa grund
- Leyptraði stjörnuhöll
- Loguðu ljósin öll;
- Landsmaðr vígðist lýðbiskup á Jólum.
- Fannhvítum hreikti faldi hátt
- Fjallkonan skörulig;
- Brimskaflar lömdu brúði þrátt,
- Brá ei við frosta rig.
- Sízt var hún sorgarlig
- Í suðurátt þá sjónareldar hvurfu.[12]
Myndmál Gunnlaugs er mjög tengt náttúrunni en Fjallkonan er íklædd náttúrunni sjálfri: Hún er krýnd sólinni, reifuð snjó og höfuðbúnaður hennar er hvítur sem fönn.
Johann Baptist Zwecker
[breyta | breyta frumkóða]Elsta prentaða mynd af Fjallkonunni birtist í enskri þýðingu íslenskra þjóðsagna, Icelandic Legends (1864-1866), og þekkt er mynd Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal á minningarspjaldi um þjóðhátíðina 1874.
Elsta þekkta myndin af Fjallkonunni var forsíðumynd á bók enskra þýðinga íslenskra þjóðsagna, gefin út af Eiríki Magnússyni og G. E. J. Powell, Icelandic Legends, Collected by Jón Arnason (1846-66). Myndin er gerð eftir vatnslitamynd þýska myndlistamannsins Johann Baptist Zwecker eftir lýsingu Eiríks. Eiríkur lýsti myndinni í bréfi til Jóns Sigurðssonar (11 Apríl 1866) sem svo:
Konumyndin á að tákna Ísland, því hefur hún ískórónu á höfði, sem eldar gjósa upp úr. Á öxl hennar er hrafninn, Íslands einkennilegasti fugl, Óðins forni vin og skáldanna eftirlætisgoð, fréttafugl mikill og margkunnugur. Yfir sjónum flögrar már, en yfir brimsævi tíma og sögu berast rúnakefli að landi eða upp í fang konunni, og hefur hún þegar náð einu þeirra. Þetta átti svo sem að vera symbolum (tákn) bókmenntalandsins og sögulandsins okkar. Yfir er nótt og stirndur himinn og máninn uppi. Á bak við eru fjöll, tunglroðin á eggjunum.[13]
Málverkið sjálft er varðveitt í háskólanum í Aberystwyth, Wales. Það var áður í eigu Powell, en hann ánafnaði háskólanum málverkið ásamt fleiri eigum sínum þegar hann lést 1882.[14]
Fjallkonan á 17. júní
[breyta | breyta frumkóða]Kona í gervi Fjallkonunnar kom fyrst fram á Íslendingadeginum í Winnipeg í Kanada 1924 og eftir lýðveldisstofnun á Íslandi 1944 hefur kona í skautbúningi jafnan flutt ávarp fjallkonunnar við hátíðahöld á 17. júní. Margar konur hafa tekið að sér hlutverk Fjallkonunnar[15] og við hátíðarhöld á Austurvelli í Reykjavík er hlutverkið jafnan í höndum ungrar leikkonu.
Fyrsta Fjallkonan á Íslandi var hin 18 ára gamla Kristjana Milla Thorsteinsson, barnabarn Hannesar Hafsteins og var hún valin til þess að flytja ávarp fjallkonunnar á Lýðveldishátíðinni á Þingvöllum árið 1944 en ekkert varð af ávarpi hennar þrátt fyrir að hún hafi beðið uppábúin eftir að verða kölluð á svið. Sú skýring var gefin að vegna veðurs hefði ekki verið unnt að flytja ávarpið og mun það hafa verið ákvörðun þeirra sem skipulögðu hátíðarhöldin og tekin án samráðs við Kristjönu sjálfa. Í umfjöllun fjölmiðla í kjölfar lýðveldishátíðarinnar var talsvert fjallað um fjarveru fjallkonunnar en þó skýrt tekið fram að ekki væri við hana sjálfa að sakast. Rannveig Kristjánsdóttir húsmæðrakennari og þekkt kvenréttindakona, taldi fjarveru fjallkonununnar táknræna fyrir stöðu kvenna og ósýnileika þeirra við stjórnun landsins.[16] Árið 2019 varð Aldís Amah Hamilton, fyrst kvenna af erlendum uppruna, valin til að flytja ávarp Fjallkonunnar við hátíðarhöldin að Austurvelli.[17] Áður höfðu konur af erlendum uppruna verið í hlutverki Fjallkonunnar við hátíðarhöld á 17. júní í öðrum bæjarfélögum, til dæmis árið 2002 er Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir flutti ávarp Fjallkonunnar í Hafnarfirði.[18]
Fjallkonutal í Reykjavík
[breyta | breyta frumkóða]Ár | Fjallkona |
---|---|
2023 | Arndís Hrönn Egilsdóttir |
2022 | Sylwia Zajkowska |
2021 | Hanna María Karlsdóttir |
2020 | Edda Björgvinsdóttir |
2019 | Aldís Amah Hamilton |
2018 | Sigrún Edda Björnsdóttir |
2017 | Þóra Einarsdóttir |
2016 | Linda Ásgeirsdóttir |
2015 | Katla Margrét Þorgeirsdóttir |
2014 | Valgerður Guðnadóttir |
2013 | Selma Björnsdóttir |
2012 | Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir |
2011 | Vigdís Hrefna Pálsdóttir |
2010 | Unnur Ösp Stefánsdóttir |
2009 | Elva Ósk Ólafssdóttir |
2008 | Elma Lísa Gunnarsdóttir |
2007 | Sólveig Arnarsdóttir |
2006 | Elsa G Björnsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir |
2005 | Þrúður Vilhjálmsdóttir |
2004 | Brynhildur Guðjónsdóttir |
2003 | Inga María Valdemarsdóttir |
2002 | Nína Dögg Filippusdóttir |
2001 | Þórunn Lárusdóttir |
2000 | Jóhanna Vigdís Arnardóttir |
1999 | Þórey Sigþórsdóttir |
1998 | Helga Braga Jónsdóttir |
1997 | Halldóra Geirharðsdóttir |
1996 | Margrét Vilhjálmsdóttir |
1995 | Sigrún Sól Ólafsdóttir |
1994 | Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir |
1993 | Ólafía Hrönn Jónsdóttir |
1992 | Halldóra Rósa Björnsdóttir |
1991 | Margrét Kristín Pétursdóttir |
1990 | María Ellingsen |
1989 | María Sigurðardóttir |
1988 | Þórdís Arnljótsdóttir |
1987 | Guðný Ragnarsdóttir |
1986 | Sigurjóna Sverrisdóttir |
1985 | Sólveig Pálsdóttir |
1984 | Guðrún Þórðardóttir |
1983 | Lilja Þórisdóttir |
1982 | Helga Jónsdóttir |
1981 | Helga Þ. Stephensen |
1980 | Saga Jónsdóttir |
1979 | Tinna Gunnlaugsdóttir |
1978 | Edda Þórarinsdóttir |
1977 | Ragnheiður Steindórsdóttir |
1976 | Helga Bachmann (2) |
1975 | Anna Kristín Arngrímsdóttir |
1974 | Halla Guðmundsdóttir |
1973 | Valgerður Dan Jónsdóttir (2) |
1972 | Margrét Helga Jóhannsdóttir |
1971 | Kristbjörg Kjeld (2) |
1969 | Valgerður Dan Jónsdóttir |
1968 | Brynja Benediktsdóttir |
1967 | Sigríður Þorvaldsdóttir |
1966 | Margrét Guðmundsdóttir |
1965 | Guðrún Ásmundsdóttir |
1964 | Gerður Hjörleifsdóttir (2) |
1963 | Kristín Anna Þórarinsdóttir |
1962 | Kristbjörg Kjeld |
1961 | Sigríður Hagalín |
1960 | Þóra Friðriksdóttir |
1959 | Bryndís Pétursdóttir |
1958 | Helga Bachmann |
1957 | Helga Valtýsdóttir |
1956 | Anna Guðmundsdóttir |
1955 | Guðbjörg Þorbjarnadóttir |
1954 | Gerður Hjörleifsdóttir |
1953 | Herdís Þorvaldsdóttir |
1952 | Þóra Borg |
1951 | Guðrún Indriðadóttir |
1950 | Arndís Björnsdóttir |
1949 | Regína Þórðardóttir |
1948 | Anna Borg |
1947 | Alda Möller |
1944 | Kristjana Milla Thorsteinsson |
Önnur notkun Fjallkonuhugtaksins
[breyta | breyta frumkóða]Samnefnt tímarit var gefið út, fyrst hálfsmánaðarlega og síðar vikulega, í Reykjavík frá 1884 til 1911.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Hver er uppruni fjallkonunnar og hvaða hlutverki gegnir hún?“. Vísindavefurinn.
- Eldgamla Ísafold
- Fjallkonutal
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Bækur.is“. baekur.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ 2,0 2,1 „Hver er uppruni fjallkonunnar og hvaða hlutverki gegnir hún?“. Vísindavefurinn. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ „Ritmálssafn“. ritmalssafn.arnastofnun.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ „Íslands minni | BRAGI“. bragi.arnastofnun.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Timarit.is“. timarit.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ Helga Kress, 1939-. Unir auga ímynd þinni : landið, skáldskapurinn og konan i ljóðum Jónasar Hallgrímssonar. OCLC 939856014.
- ↑ Þorleifur Hauksson (1976). Ljóðmæli Bjarna Thorarensen. Rannsóknastofnun í bókmenntafræði. bls. 180.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Timarit.is“. timarit.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ Helga Kress. (2000). Speglanir : konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu : greinasafn. Reykjavík: Háskóli Íslands. ISBN 9979927348. OCLC 50598341.
- ↑ Eggert Ólafsson, 1726-1768. (1974). Kvæði Eggerts Olafssonar. OCLC 185180982. bls. 107-108.
- ↑ „Sarpur.is - Prentmynd“. Sarpur.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Timarit.is“. timarit.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ „Hver er uppruni fjallkonunnar og hvaða hlutverki gegnir hún?“. Vísindavefurinn. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ aevarorn (16. nóvember 2019). „Fjallkonan sjálf er fundin - hún er í Wales“. RÚV (enska). Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ „Fjallkonan“. 17. Júní. 29. maí 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. nóvember 2019. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ Erla Hulda Halldórsdóttir, „„Þeir létu fjallkonuna hopa af hólmi“ - lýðveldishátíðin 1944 og veisluskrautið“ Geymt 30 nóvember 2019 í Wayback Machine, Hugrás vefrit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, 28. júní 2019. Sótt 28. nóvember 2019.
- ↑ „„Segir einhver nei við þessu?"“. www.mbl.is. Sótt 16. nóvember 2019.
- ↑ „Fjallkona ættuð frá framandi landi“, Morgunblaðið, 19. júní 2002. Sótt 29. nóvember 2019.