Deng Xiaoping
- Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Deng, eiginnafnið er Xiaoping.
Deng Xiaoping | |
---|---|
邓小平 | |
Formaður ráðgjafarráðs kommúnistaflokksins | |
Í embætti 13. september 1982 – 2. nóvember 1987 | |
Forseti | Li Xiannian |
Forsætisráðherra | Zhao Ziyang |
Forveri | Embætti stofnað |
Eftirmaður | Chen Yun |
Formaður hernaðarnefndar kommúnistaflokkins | |
Í embætti 28. júní 1981 – 19. mars 1990 | |
Forveri | Hua Guofeng |
Eftirmaður | Jiang Zemin |
Formaður ráðgjafarráðstefnu kínversku þjóðarinnar | |
Í embætti 8. mars 1978 – 17. júní 1983 | |
Forveri | Zhou Enlai (til 1976) |
Eftirmaður | Deng Yingchao |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 22. ágúst 1904 Guang'an, Sesúan, Kína |
Látinn | 19. febrúar 1997 (92 ára) Peking, Kína |
Þjóðerni | Kínverskur |
Stjórnmálaflokkur | Kommúnistaflokkur Kína |
Maki | Zhang Xiyuan (1928–1929) Jin Weiying (1931–1939) Zhuo Lin (1939–1997) |
Börn | Deng Lin, Deng Pufang, Deng Nan, Deng Rong, Deng Zhifang |
Starf | Hagfræðingur, stjórnmálamaður |
Deng Xiaoping ⓘ (22. ágúst 1904 – 19. febrúar 1997) (eða Teng Hsiao-p'ing) var kínverskur leiðtogi og stjórnmálamaður, kenningasmiður og stjórnarerindreki.[1] Sem leiðtogi Kommúnistaflokksins í Alþýðulýðveldinu Kína var Deng siðbótarmaður sem leiddi Kína í átt að markaðshagkerfi. Þrátt fyrir að hafa aldrei gegnt formlegu embætti sem þjóðhöfðingi eða leiðtogi ríkisstjórnar Kína þá var hann engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína frá 1978 til 1990.
Deng fæddist í Guang'an, Sesúanhéraði þann 22. ágúst 1904. Hann dvaldi við nám og störf í Frakklandi á árunum 1920 – 1925 og kynntist þar marxisma. Þar gekk hann liðs við Kommúnistaflokk Kína árið 1923. Þegar hann sneri aftur til Kína starfaði hann sem stjórnmálaerindreki á dreifbýlli svæðum Kína. Hann hófst hratt til hárra metorða innan Kommúnistaflokksins. Hann varð aðalritari flokksforystunnar þegar „gangan langa“ hófst og því talinn til „byltingahetja göngunnar“.[2] Hann varð einn æðsti yfirmaður hersins í stríðinu við Japani og í borgarastríðinu stýrði hann helmingi alls herafla kommúnista.[3] Hann tók sæti miðstjórnar Kommúnistaflokks Kína 1945. Eftir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína árið 1949 vann Deng í Tíbet og í Suðvestur-Kína til að treysta yfirráð kommúnista þar. Hann var kallaður til starfa til Beijing sem varaforsætisráðherra (1952) þar sem frami hann reis hratt. Hann gekk til liðs við framkvæmdanefnd Miðstjórnarinnar árið 1956. Hann ásamt Liu Shaoqi gegndi lykilhlutverki í efnahagslegri endurreisn Kína eftir „stóra stökkið“ á sjötta áratugnum. Efnahagsstefna hans var talinn andstæð pólitískri hugmyndafræði Maó Zedong formanns. Vegna þessa lenti hann tvívegis í „hreinsunum“ menningarbyltingarinnar. Í fyrra skiptið (1966) var hann sendur til endurhæfingarstarfa í dráttarvélaverksmiðju. Árið 1973 var hann síðan kallaður aftur til starfa með Zhou Enlai sem varaforsætisráðherra. Í veikindum Zhou tók Deng við að innleiða kennisetningar Zhou um nútímavæðingu. Eftir dauða Zhou Enlai 1976 féll Deng aftur í ónáð og lenti í „flokkshreinsunum“. En enn reis Deng til valda 1977 í sitt fyrra embætti sem varaforsætisráðherra og að auki varaformaður flokksins. Hann heimsótti Bandaríkin árið 1979 til að leita nánari tengsla. Deng styrkti valdastöðu sína 1981 þegar hann skipti andstæðingnum Hua Guofeng flokksformanni út fyrir liðsmann sinn.
Þrátt fyrir að hafa aldrei gengt formlegu hæstu embættum sem þjóðhöfðingi, leiðtogi ríkisstjórnar eða aðalritari kommúnistaflokksins í Kína er Deng engu að síður talinn meginleiðtogi „annarrar valdakynslóðar“ Alþýðulýðveldisins Kína sem tók við eftir Maó Zedong. Hann tók við Kína í sárum þar sem félagskerfi og stofnanir höfðu verið brotnar niður í menningarbyltingunni og öðrum stjórnmálaátökum Maó tímabilsins.
Deng var höfundur nýrra áherslna í kínverskum sósíalisma, þar sem efnahagslegar umbætur byggðu á kennismíð um „sósíalískan markaðsbúskap“. Hann opnaði Kína fyrir erlendum fjárfestingum, ruddi braut landsins fyrir þátttöku á heimsmarkaði og heimilaði starfsemi einkafyrirtækja á samkeppnismarkaði. Hann er yfirleitt talinn hafa lagt grunn að gríðarlegri efnahagsframþróun Kína síðast liðin þrjátíu ár. Þessi mikli hagvöxtur hefur breytt lífskjörum hundraða milljóna Kínverja til betri vegar.[4]
En þrátt fyrir að hafa losað um ríkishöft og eftirlit krafðist hann þess að flokkurinn hefði tögl og hagldir í stjórnsýslu og stjórnmálum landsins. Hann studdi til að mynda notkun hervalds til að stöðva mótmælin á Torgi hins himneska friðar.
Deng kvaddi flokkstarfið formlega árið 1989 og tilnefndi Jiang Zemin sem eftirmann sinn. Á síðustu æviárunum þjáður af Parkinsonsveiki, gat hann varla fylgst með málefnum ríkisins. Hann taldist engu að síður til æðsta leiðtoga Kína fram á síðasta dag 19. febrúar 1997.
Æskuár
[breyta | breyta frumkóða]Barnæska í Sesúan (1904―1920)
[breyta | breyta frumkóða]Deng Xiaoping (á einfaldaðri kínversku: 邓 先 圣; hefðbundin kínverska: 邓 先 圣), fæddist þann 22. ágúst 1904, í þorpinu Paifang (牌坊村) Xiexin bænum (协 兴镇) í Guang sýslu Sesúanhéraðs, sem er um 160 km. frá Chongqing-borg. Rætur hans má rekja aftur til Meixian. Upphaflega bar hann nafnið Xixi (希贤). Deng er föðurnafn hans.
Faðir hans, bóndinn Deng Wenming, bjó á eignarlandi sem tryggði Deng fjölskyldunni ágæt lífskjör.
Að loknu námi í Guang-sýslu fór Deng fjórtán ára gamall til frænda síns, Deng Shaosheng, sem var þremur árum eldri, í skóla í Chongqing-borg þar sem franska var kennd og nemendur undirbúnir fyrir frekara nám í Frakklandi. Ekki er vitað hvað varð til þess að drengir frá svo afskekktu þorpi fóru til náms í alþjóðlegum skóla. Deng (enn sem Xixia) dvaldi ár í skólanum, þar sem hann lærði meðal annars frönsku. Sumarið 1920 bauðst honum að loknum inntökuprófum að fara í námsferð fyrir kínverska nemendur með skipi til Frakklands.[5] Faðir Dengs spurði soninn, sem var yngstur í ferðinni, hvað hann vonast til að læra í Frakklandi. Hann endurtók þá orð kennara síns: „Að sækja þekkingu og sannleika Vesturlanda til bjargar Kína“. Deng Xiaoping hafði verið kennt að Kína væri veikt og fátækt ríki og til bjargar landinu yrðu Kínverjar að koma á vestrænni menntun nútímans.[6]
Deng ferðaðist með frænda sínum Shaosheng, á bát niður Yangtze á til Sjanghæborgar, steig hann á skipsfjöl með 80 öðrum kínverskum skólafélögum og sigldi til Frakklands. Þeir komu til hafnar í Marseille í nóvember sama ár.
Nám og störf í Frakklandi (1920―1926)
[breyta | breyta frumkóða]Í október 1920 kom skipið í höfn í Marseille. Ferðin var ekki eins og til hennar hafði verið stofnað í fyrstu, enda ferðafé af skornum skammti. Deng Xiaoping nam einungis í skamman tíma í gagnfræðiskóla í Bayeux og Chatillon en síðan varði hann mestum tíma í Frakklandi við vinnu. Fyrst vann hann í járn- og stálverksmiðju í Le Creusot í Mið-Frakklandi, síðar var hann vélamaður í Renault verksmiðjum í Billancourt úthverfi Parísar, þá sem slökkviliðsmaður á járnbraut og við eldhúshjálp í veitingahúsum. Hann rétt skrimti við lítil kjör og bágborið vinnuöruggi. Seinna sagði Deng að þar hefði hann fyrst kynnst svartnætti hins kapítalíska samfélags.
Í Frakklandi komst Deng í kynni við aðra kínverska innflytjendur. Fyrir hvatningu eldi félaga (meðal annars Zhao Shiyan og Zhou Enlai) nam Deng marxisma og vann að pólitískum áróðri. Októberbyltingin í Rússlandi var í algleymingi. Árið 1921 gekk hann til liðs við Æskulýðshreyfingu kínverska kommúnista í Evrópu. Á seinni hluta ársins 1924 gekk Deng formlega til liðs við Kínverska kommúnistaflokkinn, sem stofnaður hafði verið nokkrum árum fyrr með stuðningi frá Sovétríkjunum. Deng varð leiðandi innan æskulýðshreyfingarinnar flokksins í Evrópu. Hann skrifaði meðal annars pólitískar greinar í „Rauða ljósið“ en það var tímarit sem gefið af kínverskum kommúnistum í Frakklandi. Þessi fyrstu skrif Deng byggja á róttækri hugmyndafræði þar sem kommúnísk bylting er talin lausn á vandamálum í Kína.
Í Sovétríkjunum (1926―1927)
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1926 ferðaðist Deng Xiaoping til Sovétríkjanna og stundaði næstu ellefu mánuði nám aðallega við Sun Yat-sen-háskólann í Moskvu sem Þriðju alþjóðasamtök kommúnista (Komintern) ráku fyrir kínverska byltingarsinna. Þar lærði hann rússnesku, heimspeki, stjórnmálahagsfræði og Lenínisma. Þar var hann m.a. bekkjarfélagi Chiang Ching-kuo sem var sonur Chiang Kai-shek og síðar forsætisráðherra Taívan (1972– 1978).[7]
Heimkoma til Kína (1927)
[breyta | breyta frumkóða]Feng Yuexiang sem var foringi í her kínverskra þjóðernissinna í Norðvestur-Kína, kom til Moskvu og leitaði liðsinnis Sovétríkjanna í gegnum Alþjóðasamtök kommúnista (Komintern) til ráðningar Kínverja í her sinn. Á þeim tíma studdu Sovétríkin bandalag kínverska kommúnista við þjóðernissinna í Kuomintang-flokknum sem Sun Yat-sen hafði stofnað. Hann var þó ekki kommúnisti en nýtti skipulag ættað úr kennisetningum Leníns.
Deng Xiaoping varð fyrir valinu og fór með Feng Yuexiang. Eftir átta ára dvöl erlendis og strangt ferðalag yfir eyðimerkur Mongólíu kom hann loks til heimalandsins vorið 1927.
Deng dvaldi fyrst í höfuðvígi hers Feng Yuxiang í Xi'an frá mars 1927. En þegar Chiang Kai-shek tók við af Sun Yat-sen sem leiðtogi þjóðernissinna rofnaði bandalag þeirra við kommúnista. Hann stofnaði Lýðveldið Kína með Nanking sem höfuðborg og hóf að ofsækja kommúnista. Feng Yuxiang studdi Chiang Kai-Shek og kommúnistar á borg við Deng sem þjónuðu í her hans neyddust til að flýja.
Frami í Kommúnistaflokknum
[breyta | breyta frumkóða]Pólitísk neðanjarðarstarfsemi í Sjanghæ og Wuhan (1927―1929)
[breyta | breyta frumkóða]Deng Xiaoping flýði undan her Feng Yuxiang í Norðvestur-Kína til borgarinnar Wuhan þar sem kommúnistar höfðu höfuðstöðvar á þeim tíma. Þar byrjaði Deng að nota gælunafnið „Xiaoping“ og tók við ýmsum stöðum innan hreyfingarinnar. Hann tók þar þátt í sögulegum fundi í Wuhan 7. ágúst 1927, þar sem Chen Duxiu stofnanda Kommúnistaflokksins var vikið frá, að undirlagi Sovétríkjanna, og Qu Qiubai varð aðalritari flokksins. Þar hitti Deng fyrst Maó Zedong sem þá var lítils metinn af flokksforystunni.
Milli 1927 og 1929, bjó Deng (sem hét nú „Xiaoping“) í Sjanghæ, þar sem hann aðstoðaði við skipulag mótmæla sem kostuðu harkaleg viðbrögð af hálfu yfirvalda þjóðernissinna. Dráp á uppreisnarmönnum meðal kommúnista fækkaði flokksfélögunum í kommúnistaflokknum, sem aftur auðveldaði Deng frama innan flokksins.
Árið 1928 giftist Deng (þá 24 ára), fyrstu eiginkonu sinni, Zhang Xi-Yuan (Xiyuan) (þá 21 árs) í Sjanghæ. Þau höfðu verið skólafélagar í Moskvu. Hún lést 18 mánuðum síðar af barnsförum. Stúlkubarn þeirra dó einnig.
Hernaður í Guangxi héraði (1929 ―1931)
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1929 leiddi Deng Xiaoping uppreisn í Guangxi-héraði gegn ríkisstjórn þjóðernissinna (Kuomintang). Við mikið ofurefli liðsveita Chiang Kai-shek var að etja og stefnumörkun leiðtoga kommúnista var kolröng. Uppreisnin mistókst því hrapallega og kommúnistar urðu fyrir gríðarlegu mannfalli.
Í mars 1931 yfirgaf Deng bardagasvæðin og þar með sjöunda her kommúnista og fór til Sjanghæ-borgar til starfa í neðanjarðarhreyfingu kommúnistaflokksins. Óljóst er hvort hann flýði eða hvort hann var sendur til Sjanghæ. Hvort sem það var liðhlaup eða ekki, var það notað gegn honum síðar í menningarbyltingu Maó.
Aftur til Sjanghæ og til „Kínverska Sovétlýðveldisins“ (1931―1934)
[breyta | breyta frumkóða]Við komuna til Sjanghæ-borgar biðu Deng Xiaoping slæm tíðindi. Hann frétti af dauða konu sinnar og nýfæddrar dóttur. Að auki höfðu margir af félögum verið drepnir af þjóðernissinnum Kuomintang. Hann flýði því til yfirráðasvæðis kommúnista í Jiangxi héraði.
Herferðir þjóðernissinna gegn kommúnistum í borgunum voru mikið áfall fyrir hreyfinguna. Það var fyrirséð af ráðgjöfum Komintern frá Sovétríkjunum sem litu á liðsöfnun meðal öreiga í dreifbýlinu sem hina einu rétt leið. Maó Zedong hafi sömu framtíðarsýn um bændabyltingu og safnaði því liði í fjallahéruðum Jiangxi-héraðs. Þar kom hann á kommúnísku byltingarsamfélagi sem tók upp opinbera heitið „Kínverska sovétlýðveldið“ en var oft kallað „Jiangxi-sovétið“.
Ein mikilvægasta borg Kínverska sovétlýðveldisins var Ruijin. Þangað fór Deng sumarið 1931 og tók þar stöðu ritara flokksnefndar borgarinnar. Ári síðar, veturinn 1932, tók Deng við sambærilegri stöðu í Huichang sem var nærliggjandi hérað. Og árið 1933 varð hann forstöðumaður áróðursdeildar flokksins í Jiangxi. Á þeim tíma giftist hann í annað sinn, ungri konu sem hét Jin Weiying. Þau höfði hist í Sjanghæ.
Vaxandi árekstrar voru á milli hugmynda Maó og annarra leiðtoga flokksins um dreifbýlisáherslur hinna sovésku ráðgjafa þeirra. Maó fylgdi ráðgjöfunum að málum og Deng fylgdi þeim einnig. Átökin urðu til þess að Deng misstri stöðu sína í áróðursdeild flokksins.
Þrátt fyrir þessi innri átök var Kínverska sovétlýðveldið fyrsta árangursríka tilraun kommúnista til að stjórna í dreifbýlum héruðum. Gefin voru út frímerki og peningaseðlar prentaðir með nafni Sovétlýðveldisins. Her Chiang Kai-shek ákvað loks að láta til skara skríða gegn svæðinu.
„Gangan langa“ (1934―1935)
[breyta | breyta frumkóða]Umkringdur lýðveldisher þjóðernissinna sem var mun öflugri en sveitir kommúnista voru kommúnistar neyddir til að flýja frá Jiangxi héraði í október 1934. Þessi flótti yfir hálendi Kína fékk síðar nafnið „gangan langa“ og átti eftir að marka tímamót í þróun hreyfingar kínverskra kommúnista. Alls lögðu 80.000 manns af stað í „gönguna“ sem náði yfir hálendi Kína allt til norðurhluta Shaanxi héraðs ári síðar. Einungis 8.000 eða 9.000 menn komust á leiðarenda. Deng Xiaoping var einn þeirra.
Við upphaf „göngunnar löngu“ var Maó Zedong orðinn nýr leiðtogi kínverska kommúnistaflokksins. Hann hafði ýtt til hliðar öllum helstu keppinautum sínum. Maó og Sovésku ráðgjafarnir höfðu betur. Deng fékk aftur fyrri störf í flokki á endanum vann borgarastyrjöldina gegn þjóðernissinnum Kuomintang.
En átök kommúnista og þjóðernissinna voru rofin með innrás Japana. Það neyddi fylkingarnar til að mynda í annað skiptið, bandalag til varnar Kína fyrir yfirgangi erlendra herja.
Innrás Japana (1937―1945)
[breyta | breyta frumkóða]Innrás japanskra herdeilda í Kína árið 1937 markaði upphaf seinna stríðs Kínverja og Japana. Í stríðinu dvaldi Deng Xiaoping á svæðum sem stjórnað var af kommúnistum í norðri, þar sem hann tók við pólitískri stjórnun þriggja herdeilda kommúnista. Þar var hann að mestu á átakasvæðum er liggja við héruð Shanxi, Henan og Hebei. Hann fór í nokkrar ferðir til Yan'an borgar þar sem Maó hafði komið upp bækistöð. Í einni þeirra ferða til Yan'an árið 1939, fyrir framan hinn fræga hellisbústað Maó í Yan'an, giftist Deng í þriðja sinn, Zhuo Lin, ungri dóttur iðnrekenda í Yunnan héraði, ættaðri frá Kunming, sem hafði af hugsjón ferðast til Yan'an til að berjast með kommúnistum.
Áframhald stríðs gegn þjóðernissinnum (1945―1949)
[breyta | breyta frumkóða]Eftir ósigur í Japana í síðari heimsstyrjöldinni, ferðaðist Deng Xiaoping til Chongqing-borgar, þar sem Chiang Kai-Shek hafði bækistöð í stríðinu við Japani, til að taka þátt í friðarviðræðum friður milli þjóðernissinna og kommúnista. Niðurstöður viðræðnanna voru neikvæðar og borgarastyrjöld hófst milli fylkinganna á ný.
Á meðan Chiang Kai-Shek kom á nýrri stjórn í Nanjing, höfuðborg „Lýðveldisins Kína“ söfnuðu kommúnistar, með bækistöð í Chiang, liði og landsvæðum. Skæruhernaður þeirra var árangursríkur, yfirráðasvæði þeirra stækkaði mjög og sífellt fleiri liðhlaupar úr her þjóðernissinna gengu til liðs við kommúnista.
Í þessum síðasta áfanga stríðsins gegn her þjóðernissinna gegndi Deng auknu hlutverki sem stjórnmálaleiðtogi og áróðursmeistari. Hann var pólitískur embættismaður fyrir her Liu Bocheng hershöfðingja, þar sem hann miðlaði kennismíð Maó Zedong. Pólitískt og hugmyndafræðilegt starf, ásamt því að vera talinn til „byltingahetjanna“ sem tóku þátt í „göngunni löngu“, gerði Deng kleift að komast til æðri valda, eftir sigur kommúnista á þjóðernissinnum og stofnun Alþýðulýðveldisins Kína.
Stjórnmálaferill undir stjórn Maó
[breyta | breyta frumkóða]Aftur í Chongqing héraði (1949―1952)
[breyta | breyta frumkóða]Þann 1. október 1949, fagnaði Deng Xiaoping í Peking ásamt öðrum leiðtogum kommúnista, stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Á þeim tíma stýrðu kommúnistar norðurhluta Kína, en landsvæði í suður Kína voru enn undir stjórn þjóðernissinna. Deng fékk það ábyrgðarstarf að leiða kommúnista til lokasigurs í suðvestur Kína sem aðalritari flokksins í þeim landshluta. Verkefnið var annars vegar að ná stjórn á suðvestur Kína þar sem stór landsvæði voru enn undir stjórn þjóðernissinna Kuomintang og hins vegar að hertaka Tíbet sem hafði í raun verið sjálfstætt til margra ára.
Þegar ríkisstjórn þjóðernissinna hafði verið neydd til að yfirgefa Nanking borg völdu þeir Chongqing sem nýja höfuðborg til bráðabirgða, líkt og þeir höfðu gert á tímum innrásar Japana. Þar varðist Chiang Kai-Shek með syni sínum Chiang Ching-kuo, fyrrum bekkjarfélaga Deng í Moskvu.
Undir pólitíska stjórn Deng Xiaoping, sigraði her kommúnista Chongqing borg í suðvestur Kína 1. desember 1949 og var Deng strax ráðinn borgarstjóri, auk þess að vera leiðtogi kommúnistaflokksins í suðvestur Kína. Chiang Kai-Shek flýði til höfuðborgar Chengdu héraðs. Þá borg misstu þjóðernissinnar þann 10. desember og Chiang flúði til Taiwan á sama dag.
Árið 1950, tóku kommúnistar einnig stjórn á Tíbet.
Deng varði þremur árum í Chongqing, þar sem hann ungur að árum numið fyrir ferðina til Frakklands. Árið 1952 flutti hann til höfuðborgarinnar Beijing, til að takast á hendur mismunandi störf á vegum hins nýja ríkis.
Stjórnmálaframi í Beijing (1952―1968)
[breyta | breyta frumkóða]Í júlí 1952 kom Deng til Beijing til að taka við sem aðstoðarforsætisráðherra og varaformaður fjármálanefndarinnar. Skömmu síðar varð hann fjármálaráðherra og forstöðumaður skrifstofu fjarskiptamála. Árið 1954, lét hann af þessum embættum, nema staðgengilstöðu forsætisráðherra, til að verða framkvæmdastjóri miðstjórnar flokksins, forstöðumaður skipulagsskrifstofu flokksins og varaformaður hermálanefndarinnar.
Deng fékk sem stuðningsmaður Maó Zedong nokkrar mikilvægar vegtyllur í nýrri ríkisstjórn Alþýðulýðveldisins. Árið 1955 tók hann sæti í framkvæmdanefnd miðstjórnarinnar, sem var æðsta stjórn Alþýðulýðveldisins. Eftir að styðja Maó opinberlega í herferð hans gegn „hægri öflunum“, varð Deng varð framkvæmdastjóri skrifstofu flokksins og sá um hefðbundin rekstrarmál landsins í samstarfi við Liu Shaoqi forseta landsins og aðalritara flokksins. Þeirri stöðu hélt Deng næstu tíu ár eða til 1966. Á þeim tíma vann Deng að skipulagningu ríkisins. Þar var hann hægri hönd Liu Shaoqi forseta.
Bæði Liu og Deng studdu Maó í herferðum hans gegn „borgaralegum öflum“ og kapítalistum, og kröfunni um hollustu við stjórn kommúnista.
Í Sovéskum anda kynnti Maó nýja 5 ára efnahagsáætlun — „Stóra stökkið“ — sem skyldi koma bændasamfélaginu Kína í helstu röð iðnríkja á örfáum árum. Kommúnismann átti að fullkomna: Allur einkarekstur í landbúnaði var bannaður og því fylgt eftir með ofbeldi. Tilraunin um stökkið stóra reyndist gríðarleg hörmung fyrir þjóðina. Niðurstaðan var hrun landbúnaðarkerfisins. Áætlað er að um 20 milljón Kínverja hafi soltið í hel.[8] Það mistókst að þróa fram „hin félagslegu framleiðsluöfl“ í „Stóra stökkinu“ 1958 til 1961, með því að „láta vinda kommúnismans“ blása.
Árið 1963, leiddi Deng kínverska sendinefnd til Moskvu að funda með eftirmanni Stalíns, Níkíta Khrústsjov. Tengsl á milli Alþýðulýðveldisins og Sovétríkjanna höfðu versnað til muna frá dauða Stalíns, og eftir þennan fund var þeim nær alveg slitið.
Liu Shaoqi og Deng tóku varkár skref í breyttri hagstjórn, þar sem Maó var meir í táknrænu hugmyndafræðilegu hlutverki. Maó samþykkti að eftirláta Liu Shaoqi forsetaembætti Alþýðulýðveldisins, en hélt flokksformennsku og stjórn hersins.
Liu Shaoqi forseti og Deng leyfðu bændum í dreifðari byggðum að eiga æ stærri landskika til framleiðslu sem hægt væri að selja á mörkuðum. Fjárfesting í landbúnaði jókst og bændum var leyft að leigja land af kommúnum þannig að þeir urðu meir sjálfstæðir. Þetta sló á hungursneyðina og ýtti undir framleiðni.[9] En það dró að sama skapi úr áherslu bænda á samyrkjustörfin. Og þau urðu meira á höndum einkaaðila sem aftur þýddi vaxandi ójöfnuð meðal bænda ásamt vaxandi spillingu meðal flokksforystunnar í sveitum landsins.
Í borgum Kína var iðnaður endurskipulagður þannig að meira vald var fært í hendur stjórnendum og sérfræðingum. Bónusar og hagnaðarhlutdeild sem víða voru kynntir til að stuðla að meiri hagkvæmni, leiddu til meira efnahagslegs og félagslegs misréttis. Þeir félagar Deng og Liu notuðu vaxandi óánægju með „Stóra stökkið fram á við“ til að sækja meiri áhrif innan Kommúnistaflokksins. Þeir hófu efnahagslegar umbætur sem jók orðstír þeirra meðal embættismanna og flokksstjórnenda. Þeir voru því að færast meir til „hægri“ frá vinstri sinnaðri stefnu Maó.
Það var á ráðstefnu í Guangzhou árið 1961 sem Deng lét fræga tilvitnun falla: „Mér er sama hvort kötturinn er hvítur eða svartur. Það er góður köttur svo lengi sem hann veiðir mýs“[10]. Það skipti sumsé litlu hvort fylgt væri kommúnisma eða kapítalisma. Meginatriðið er að afkastameiri framleiðsla.
Þeir félagar Liu og Deng voru taldir æ meir til „hægrisinnaðra tækifærisafla“. Maó greip til aðgerða til að ná aftur stjórn á landsmálum. Hann höfðaði til byltingarhugmynda þeirra og hratt af stað menningarbyltingunni í nóvember 1965.
„Menningarbyltingin“ (1965―1973)
[breyta | breyta frumkóða]„Hin mikla menningarbylting öreiganna“ varð fjöldahreyfing sem Maó Zedong sjálfur stýrði. Með kraftmiklu orðfæri byltingar og blindri trú samstarfsaðila á borð við Lin Biao, var fjöldinn hvattur til byltingaranda kommúnismans. Maó hvatti kínverska æsku til að ráðast á þá sem voru ekki trúir hans forystu. Markmið hans virðist verið að ná fyrri völdum sem höfðu veikst eftir efnahagshrun „Stóra stökksins“. Hann hafði vaxandi áhyggjur af því að „hægri stefna“ þeirra Deng og Liu forseta gæti leitt til þess að endurreisn markaðskerfis og endaloka kommúnistabyltingarinnar.[11] Menningarbyltingu Maó var ætlað að vera allsherjar uppgjör hins róttækra og hins hægfara arms („hægriöflin“) Kommúnistaflokks Kína. Uppræta átti menningu og listir í landinu enda taldar í mótsögn við kommúnismann. Kommúnistaflokkurinn nánast klofnaði og flokksfélagar voru bornir fáránlegum sökum og fangelsaðir. Öfgafull persónudýrkun Maó náði nýjum hæðum undir skipulagi Lin Biao. Maó var gerður guðlegur. Róttæklingar hvöttu til uppreisnar sem leiddi síðan af sér fylkingu „Rauðra varðliða“ sem hugðust gera uppreisn gegn öllum andstæðingum Maó.
Deng féll úr flokksnáð. Hann og Zhuo Lin eiginkona hans dvöldu í stofufangelsi í Beijing stóran hluta ársins 1968. Í október sama ár var Deng gert að segja sig frá öllum flokksstörfum. Hann var sendur til verkamannastarfa í Dráttarvélaverksmiðju Xinjian sýslu sem er í Jiangxi héraði. Þar nýtti hann einnig tíma til ritstarfa. Honum var hafnað opinberlega á landsvísu, en þó í minna mæli en Liu Shaoqi fyrrum forseta.
Hinir „Rauðu varðliðar“ menningarbyltingarinnar réðust á Deng Xiaoping og fjölskyldu hans. Deng Pufang sonur Dengs var illa pyntaður og var hent út um glugga á fjögurra hæða byggingu Beijing-háskóla. Hann bakbrotnaði og varð lamaður fyrir neðan mitti upp frá því. Deng Pufang var strax tekinn á spítala en var neitað um inngöngu vegna stjórnmála föður hans. Seinna átti hann eftir að stofna Samtök fatlaðra í Kína. Fyrir þau störf hlaut hann Mannréttindaverðlaun Sameinuðu þjóðanna árið 2003. Hann leiddi skipulag Ólympíuleikanna í Beijing 2008.[12] Í bók Chang og Halliday, er sagt að hann hafi stokkið út um glugga í háskólanum af ótta við pyntingar. Við fallið hafi hann lamast.
Líkt og Maó hafði hvatt til var Alþýðulýðveldið í upplausn. Stjórnleysi, tilviljanakenndar aftökur, opinberar pyntingar og samfélagsleg eyðilegging blasti hvarvetna við. Fræðimenn hafa áætlað að í dreifbýlinu einu hafi um 36 miljónir manna verið ofsóttar og á milli 750.000 til 1,5 milljón manna verði drepin. Svipaður fjöldi var varanlega skaddað líkamlega.[13] Sumir telja mun hærri tölu látinna.[14]
„Önnur endurhæfing“ Deng ― Dauði Maó (1973―1976)
[breyta | breyta frumkóða]Undir lok menningarbyltingarinnar lá við borgarastríði í Kína og herinn skarst í leikinn. Eftir að Lin Biao (sem tók við af Liu Shaoqi sem forseti og var opinber eftirmaður Maó) hafði látist í „flugslysi“ naut Deng Xiaoping stuðnings leiðtoga hersins. Hann hafði einn fárra stjórnað herfylkingum í borgarastyrjöldinni. Í ágúst 1972 dró Maó í land og baðst afsökunar á gerðum sínum. Þegar Zhou Enlai forsætisráðherra veiktist úr krabbameini valdi hann Deng sem eftirmann sinn. Zhou tókst að sannfæra Maó að kalla Deng aftur til stjórnmál í febrúar 1973.[11] En menningarbyltingunni var í raun ekki lokið enn. Róttækur hópur sem seinna var kallaður „fjórmenningaklíkan“ undir forystu Jiang Qing eiginkonu Maó, vildi meiri völd innan kommúnistaflokksins (Maó sjálfur gaf hópnum þetta heiti).
Þar töldu þau Deng sína stærstu hindrun. Maó grunaði Deng um græsku og óttaðist að hann eyðilagði hið „jákvætt orðspor“ menningarbyltingarinnar. Hann taldi Deng í raun til andstæðinga sinna innan flokksins.[15] Deng komst því aftur til áhrifa. Þann 20. mars 1973, þegar honum var skipað að koma aftur til Beijing sem varaforseti. Völd hans voru þó ekki söm og áður. Hann átti fyrst og fremst að sinna ytri samskiptum en Maó og „fjórmenningarklíkan“ streittust við að stjórna innanlands. Deng fór því varlega í sakirnar og gætti þess ― að minnsta kosti opinberlega ― að fara ekki gegn stefnu Maó.
Deng sinnti þó innanríkismálum einnig. Hann reyndi að stöðva menningarbyltinguna og bæta lífkjör fólksins. Hann reyndi að aflétta nær algeru banni á bókum, listum og skemmtunum sem hafði gilt í tíu ár í stjórnartíð Maó. Það tókst hann á við eiginkonu Maó og síðar Maó sjálfan.[16]
Með andláti Zhou Enlai forsætisráðherra í janúar 1976 var horfið það pólitíska bakland sem Zhou veitti Deng innan miðstjórnarinnar. Að lokinni jarðaför Zhou hóf „fjórmenningarklíkan“ með stuðningi Maó opinbera herferð gegn Deng.[11] Hann var gagnrýndur og aðgerða krafist gegn Deng og „hægri öflunum“. Hua Guofeng ― en ekki Deng ― varð því fyrir valinu sem eftirmaður Zhou Enlai. Miðstjórnin gaf síðan út fyrirmæli um að Deng yrði fluttur til að vinna að „ytri málefnum“ og í raun þannig tekinn út úr valdakerfi flokksins. Hann var í varðhaldi að fyrirskipan Maó í þrjá mánuði.[17] Deng dvaldi því heima næstu mánuði að bíða örlaga sinna. Efnahagsframfarir Deng hægðu á sér. Enn gaf Maó út tilskipun þar sem lögmæti Menningarbyltingarinnar var áréttað og bent á Deng sem sérstakt vandamál. Í framhaldinu gaf miðstjórnin út tilskipun til allra flokksstofnana þar sem þær voru beðnar að gagnrýna Deng. Í jarðskjálftanum mikla 1976 voru björgunarmenn hvattir af fjölmiðlum að „fordæma Deng af rústunum“.[18] Maó krafist þess að Deng viki úr öllum ábyrgðarstöðum.[11] Hann mátti þó halda flokkskírteininu. Maó Zedong andaðist þann 9. september 1976. Við það átti staða Deng eftir að breytast smám saman til batnaðar.
Leiðtogi Kína
[breyta | breyta frumkóða]Baráttan við Hua Guofeng (1976―1977)
[breyta | breyta frumkóða]Eftir dauða Maó dvaldi Deng Xiaoping í fyrstu í höfuðborginni Beijing en var utan stjórnmála. Hann átti þó eftir að takast annars vegar á við Hua Guofeng forsætisráðherra, sem var arftakinn sem Maó hafði tilnefnt og hins vegar við „fjórmenningarklíkuna“ sem skipulagt hafði menningarbyltinguna með Maó.
Til að treysta vald sitt lét Hua forseti handtaka „fjórmenningarklíkuna“ og ásakaði hana fyrir óeirðir og eyðileggingu menningarbyltingarinnar. Hann hugðist gera „klíkuna“ að blóraböggli fyrir róttækni síðustu ára Maó. Þannig ætlaði Hua að kynna sjálfan sig sem sannan arftaka arfleifðar Maó formanns.
En Hua átti lítinn stuðning innan flokksins. Til að draga úr eyðileggingu menningarbyltingarinnar var hann var talsmaður miðstýrðar efnahagsuppbyggingar í anda Sovétríkjanna, nokkuð sem Den og fylgismenn voru andsnúnir. Margir frammámenn í flokknum höfðu orðið fyrir barðinu á menningarbyltingunni og studdu því fremur Deng Xiaoping. Stuðningurinn við Deng þrýsti á Hua Guofeng og samstarfsmenn hans að samþykkja pólitíska endurkomu Deng. Að lokum var Hua ljóst að hann neyddist til þess.
Á flokksþinginu 22. júlí 1977 var Deng aftur gerður að varaforsætisráðherra landsins og varaformaður framkvæmdanefndar miðstjórnarinnar og varaformaður herráðsins.
Á sama tíma jukust áhrif stuðningsmanna Deng. Áhrif Zhao Ziyang flokksleiðtoga í Sesúan jukust vegna mikils árangurs af efnahagslegum umbótum.
Hin pólitíska endurkoma (1977―1979)
[breyta | breyta frumkóða]Á næstu árum eftir andlát Maó birtist Deng smám saman sem pólitískur leiðtogi Kína.
Hann hafnaði menningarbyltingunni og kynnti „Vorið í Beijing“ árið 1977, þar sem leyfð var opin gagnrýni á þær öfgar og þjáningar sem höfðu átt sér stað á tímabilinu.[11] Byggja þurfti aftur upp menntakerfi Alþýðulýðveldisins sem var í algerri rúst eftir menningarbyltingua. Á sama tíma var Deng drifkraftur í að afnema opinbert kerfi Kommúnistaflokksins sem kannaði bakgrunn manna og kom í veg fyrir að Kínverjar sem taldir voru með rætur í landeigendastétt fengju vinnu eða frama. Afnámið þýddi í raun að kínverskum kapítalistum var leyfð innganga í kommúnistaflokknum.
Hægt og rólega yfirvann Deng pólitíska andstæðinga sína. Með því að hvetja til opinberrar gagnrýni á Menningarbyltinguna, veikti hann stöðu þeirra sem höfðu átt frama sinn undir henni. Að sama skapi styrktist staða þeirra sem höfðu sætt „pólitískum hreinsunum“ þessa tíma. Deng var vinsæll meðal almennings.
Þótt Hua Guofeng hafi formlega farið með æðstu stöður í Alþýðulýðveldinu var staða hans sífellt erfiðari. Í desember 1978 á flokksráðsfundi miðstjórnarinnar var Deng kominn með flesta þræði í sínar hendur. Stuðningsmönnum Deng fjölgaði. Völd Hua Guofeng, sem enn var flokksformaður, forsætisráðherra ríkisráðsins og formaður herráðsins fóru minnkandi. Formleg titlar og raunveruleg völd fóru ekki saman.
Og þegar Deng náði nægum yfirráðum yfir flokknum var Hua skipt út fyrir hinn frjálslynda Zhao Ziyang sem forsætisráðherra árið 1980 og með Hu Yaobang sem flokksformanni árið 1981. Loks þegar Zhao Ziyang hraktist frá vegna stúdentaóeirðanna á Torgi hins himneska friðar 1989, kom Deng þriðja liðsmanni sínum Jiang Zemin, til valda. Deng hélt áfram að vera valdamestur meðal flokksmanna, þó að eftir 1987 hafi hann einungis verið formaður ríkisins og fulltrúi í herráði Kommúnistaflokksins.
Deng leyfði þó Hua að vera áfram í miðstjórn flokksins og hætta síðan hljóðlega störfum. Þannig markaði Deng fordæmi um valdaskipti án ofbeldis.
Upphaflega var forsetaembættið hugsað sem leiðtogastaða fyrir ríkið en raunveruleg völd væru á hendi forsætisráðherra og flokksformanns. Þessi embætti áttu ekki að vera á einni hendi til að koma í veg fyrir persónudýrkun (líkt og raunin varð með Maó). Flokknum var því ætlað að móta stefnuna og ríkisvaldinu að framkvæma hana.
Frami Deng til leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína kallaði á að svara þyrfti sögulegum og hugmyndafræðilegum spurningum frá Maó Zedong tímanum. Deng vildi ná raunverulegum breytingum og því var óhugsandi að halda áfram harðlínustefnu Maó um „stéttabaráttuna“ og fjölda opinberra funda. Á miðstjórnarfundi kommúnistaflokksins árið 1982 var gefið út skjal sem ber heitið „Um ýmis söguleg atriði frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína“[11] Þar hélt Maó stöðu sinni sem „mikill marxisti, byltingarmaður öreiganna, hernaðarsnillingur, og hershöfðingi“ almenna". Óvefengjanlegt væri að hann væri stofnandi og frumkvöðull landsins og „Frelsishersins“. „Afrek hans verður að telja á undan mistökum hans,“ segir skjalið. Deng sjálfur sagði Maó „að sjö hlutum góður en þremur illur“. Skjalið beindi einnig ábyrgð á Menningarbyltingunni frá Maó, þó að fullyrt sé að hann hafi hafið byltinguna fyrir mistök. Byltingin hafi í raun verið á ábyrgð „fjórmenningarklíkunnar“ og Lin Biao.
Opnun Kína
[breyta | breyta frumkóða]Undir leiðsögn Deng voru samskipti við Vesturlönd bætt verulega. Hann ferðaðist til útlanda og átti vinsamlega fundi með vestrænum leiðtogum. Í janúar 1979 varð hann fyrstur kínverskra leiðtoga til að heimsækja Bandaríkin með því að funda Jimmy Carter forseta í Hvíta húsinu. Skömmu fyrir fundinn höfðu Bandaríkin slitið diplómatískum samskiptum við Lýðveldið Kína (í Taiwan) og komið þeim á við Alþýðulýðveldið Kína. Samskipti Kína og Japan tóku verulegum framförum. Deng notaði Japan sem dæmi um ört vaxandi efnahagsveldi sem setti Kína gott fordæmi fyrir komandi ár.
Og alþjóðaviðskiptin létu ekki á sér standa. Síðla árs 1978 tilkynnti bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing um sölu á nokkrum farþegaþotum til Alþýðulýðveldisins og gosdrykkjarframleiðandinn Coca-Cola tilkynnti um fyrirhugaða verksmiðju fyrirtækisins í Sjanghæ-borg.
Annað afrek var samningur sem undirritaður af Bretlandi og Kína 1984 þar sem Hong Kong yrði afhent Alþýðulýðveldinu árið 1997. Gegn lokum 99 ára sögu Breta í Hong Kong samþykkti Deng að raska ekki markaðskerfi svæðisins næstu 50 árin. Samsvarandi samningur var undirritaður við Portúgal vegna Makaó. Deng kynnti þar hugtakið „eitt land, tvö kerfi“,[11] sem Alþýðulýðveldið hefur bent á sem mögulega leið fyrir sameiningu Taiwan við meginlandið á komandi árum.
Deng gerði þó lítið til að bæta samskiptin við Sovétríkin. Hann hélt áfram að fylgja línu Maó um samstarfsleysi við Sovétríkin. Þau voru sem heimsveldi á sama stalli og Bandaríkin, en gátu jafnvel skapað meiri hættu vegna nálægðarinnar við Kína.
Á flokksþingi Kommúnistaflokksins í október 1987 var Deng Xiaoping endurkjörinn formaður Hernefndar framkvæmdastjórnarinnar, en hann sagði af sér sem formaður ráðgjafarráðsins og við tók Chen Yun. Hann hélt áfram að þróað umbætur sem meginstef. Hann setti fram þriggja þrepa stefnu fyrir efnahagslega framþróun Kína innan 70 ára: Fyrsta skrefið var að tvöfalda þjóðarframleiðslu 1980 og tryggja að fólk hafi í sig og á — því var náð í lok níunda áratugarins, í öðru lagi skyldi ferfalda þjóðarframleiðsluna 1980, fyrir lok 20. aldar — því var náð árið 1995 á undan áætlun. Í þriðja lagi þyrfti að auka þjóðarframleiðslu á mann sem nemur miðlungs -þróuðum ríkjum fyrir árið 2050 — þá verði Kínverjar nokkuð vel stæðir og nútímavæðing hefur í grundvallaratriðum orðið að veruleika. Þannig getur Kína orðið fyrirmynd annarra vanþróaðri ríkja sem telja til ¾ mannkyns.[11]
Efnahagsumbætur
[breyta | breyta frumkóða]Bætt samskipti við umheiminn var önnur af tveimur mikilvægum áherslubreytingum sem komu fram í umbótaráætlun Deng sem bar heitið „Umbætur og opnun“. Innlend félagsleg, pólitísk og ekki síst, efnahagsleg kerfi breyttust verulega á leiðtogatíma Deng. Markmið nútímavæðingar Deng náðu til landbúnaðar, iðnaðar, vísinda og þróunar, og hersins.
Til að ná þeim markmiðum að verða nútíma iðnríki „sósíalískur markaðsbúskapur“.[19] Deng hélt því fram að Kína væri að stíga fyrstu skref sósíalisma og að skylda flokksins væri að fullkomna svokallaðan „sósíalisma með kínverskum eiginleikum“ og að „leita sannleika meðal staðreynda“. Þessi túlkun á maóisma dró úr hlutverki hugmyndafræði við ákvarðanatöku og stefnumörkun efnahagsmála. Þannig var að mati sumra dregið úr mikilvægi sameignargilda en ekki endilega að hugmyndafræði marx-lenínisma. Deng sagði: „sósíalismi þýðir ekki að deila með sér fátækt“. Þetta réttlætti frelsi markaðsaflanna, sagði Deng:
Meginmunur á sósíalisma og kapítalisma liggur ekki í skipulagi og markaðsöflum. Skipulagt hagkerfi er ekki skilgreining á sósíalisma, því skipulag á sér stað einnig í kapítalisma og markaðshagkerfi er einnig undir sósíalisma. Skipulags-og markaðsöfl eru leiðir til að stjórna atvinnustarfsemi.[20] |
Ólíkt Hua Guofeng, taldi Deng að engri stefnu bæri að hafna þó hún samræmdist ekki kennismíð Maó. Ólíkt íhaldssamari leiðtogum á borð við Chen Yun, mótmælti Deng ekki stefnu á þeim forsendum einum að hún líktist stefnu kapítalískra þjóða.
Þessi sveigjanleiki gagnvart undirstöðum sósíalismans er studdur tilvitnunum í Deng á borð við:
Við megum ekki óttast að taka upp háþróaðri stjórnunaraðferðir sem beitt er í kapítalískum ríkjum (...) Meginkjarni sósíalisma er frelsun og framþróun framleiðsluaflanna (...) Sósíalismi og markaðshagkerfi eru ekki óásættanleg (... ) Við ættum að hafa áhyggjur af frávikum til hægri, en mest af öllu verðum við að hafa áhyggjur af frávikum á vinstri-væng stjórnmálanna.[21] |
En Deng var ekki einn að verki. Þrátt fyrir að Deng hafi lagt „fræðilegan bakgrunn“ og pólitískan stuðning fyrir efnahagslegum umbótum, er almennt álitið að meðal sagnfræðinga, að efnahagsumbætur sem Deng kynnti, væru runnar undan hans rifjum. Zhou Enlai forsætisráðherra var til dæmis, brautryðjandi til nútímavæðingar löngu fyrir Deng. Auk þess voru margar umbætur kynntar af leiðtogum einstakra sveitarfélaga. Gengu þær vel eftir voru þær framkvæmdar á æ stærri svæðum og loks í landinu öllu.[22] Einnig var sótt í reynslu Austur-Asíu tígranna (Hong Kong, Singapore, Suður-Kóreu og Taiwan).
Meginþróunin í átt til markaðshagkerfis fólst í að leyfa sveitarfélögum og héraðsstjórnum að fjárfesta í þeim iðnaði sem þeir töldu skila mestum arði. Þessi stefna ýtti undir fjárfestingar í léttum iðnaði. Þannig ýttu umbætur Deng á að Kína færðist til létts framleiðsluiðnaðar og útflutningshvetjandi. Með stuttum aðdraganda, lágmarks fjármagni og mjög hárri gjaldeyrissköpun útflutningstekna, mynduðust tekjur til að endurfjárfesta í þróaðri tækniframleiðslu og síðan í frekari fjármagnsútgjöldum og fjárfestingum.
Þessar fjárfestingar voru ekki að boði ríkisstjórnarinnar. Fjármagn fjárfest í stóriðju kom að mestu úr bankakerfinu sem byggði að mestu á innlánum. Eitt af fyrstu atriðum umbóta Deng var að koma í veg fyrir endurúthlutun á hagnaði nema í gegnum skatta eða í gegnum bankakerfið; endurúthlutun til ríkisiðnaðar var þess vegna nokkuð óbein, sem gerði hann óháðari ríkisvaldinu. Í stuttu máli kveiktu umbætur Dengs þannig iðnbyltingu í Kína.[23]
Þessar umbætur voru viðsnúningur frá þeirri stefnu Maó að Kína yrði að vera sjálfu sér um nægt í öllu. Nútímavæðingu var flýtt með því að auka erlend viðskipti, einkum með sölu véla til Japan og Vesturlanda. Útflutningsdrifinn hagvöxtur hraðaði efnahagslegri þróun með yfirtöku á erlendum sjóðum, markaði, tækniþróun og stjórnunarreynslu. Afleiðingin var nútímavæðing Kína. Deng ýtti undir þessa þróun með því að setja upp fjögur „sérstök fríverslunarsvæði“ og opnaði fyrir erlend samskipti 14 strandborga.[24] sem dró að erlend fyrirtæki þar sem hvatt var til erlendra fjárfestinga og markaðsfrelsis.
Umbætur Deng fólu einnig í sér framleiðniaukningu. Hvatar til notkunar nýrra efna og bónuskerfi til starfsmanna voru kynnt til sögunnar. Bændur á landsbyggðinni voru hvattir til að selja framleiðslu sína á markaði sem jók landbúnaðarframleiðslu og einnig iðnþróun. Þessi virðisauki bænda á opnum markaði ýtti undir meiri neyslugetu og þannig á iðnþróun. Að sama skapi jókst pólitískur stuðningur við enn frekari efnahagsumbætur.
Eftir flokksþing Kommúnistaflokksins 22. desember 1978, hófust undir forystu Deng Xiaoping efnahagsumbætur byggðar á stefnu sem er í raun enn ríkjandi í dag. Það markmið að skapa nægan tekjuafgang til að til að fjármagna nútímavæðingu hagkerfis meginlands Kína, gekk eftir. Þrátt fyrir opinberar kennisetningar um kommúnisma er hagkerfi Alþýðulýðveldisins Kína í raun nú hagkerfi einkarekstrar. Um 70% af þjóðarframleiðslu alþýðulýðveldisins kemur í dag frá einkafyrirtækjum.[25] Afgangurinn byggir að mestu á 200 afar stórum ríkisfyrirtækjum í fjarskiptum, veitum og orku.
Hagkerfi alþýðulýðveldisins er eitt þeirra hagkerfa sem hafa vaxið hvað hraðast í heiminum á undanförnum 25 árum. Þessi ótrúlegi hagvöxtur hefur leitt til gríðarlegra breytinga á lífskjörum almennings. Samkvæmt mati Alþjóðabankans hafa meira en 600 milljónir Kínverja risið frá fátækt til bjargálna frá 1981 til 2004.[26] Á 20 árum frá árinu 1981, féll hlutfall þeirra kínverja sem lifðu fyrir neðan fátækramörk úr 53% í 8%.[27]
Alþjóðabankinn hefur áætlað að fyrir efnahagsumbætur 1978 hafi meira en 60% Kínverja hafi haft viðurværi sitt af minna en einum bandaríkjadal ($ USD) á dag (KMJ) en það eru fátæktarviðmið bankans. Það fátæktarhlutfall var komið niður í 10% árið 2004.
En á tímum gríðarlegra efnahagslegra framfara blöstu við margvísleg félagsleg vandamál. Samkvæmt opinberu manntali 1982 fór fjöldi Kínverja yfir einn milljarð. Deng Xiaoping studdi áætlanir sem byggðu á frumkvæði Hua Guofeng um takmörkun fæðinga og kynntar voru 1978. Hin frægu lög sem takmörkuðu pörum að eiga einungis eitt barn, ella sæta sektum. Skiljanlega jókst gagnrýni á stjórnvöld vegna þessa.
Á hinn bóginn kallaði vaxandi efnahagslegt frelsi á meira frelsi til skoðanaskipta og gagnrýni á kerfið, yfiráð flokksins og spillingu embættismanna jókst. Meira efnahagslegt frelsi þýddi aukinn ójöfnuð. Lok níunda áratugarins sem mörkuðust af ósætti með alræði kommúnistaflokksins og vaxandi misrétti, urðu Deng Xiaoping þung í skauti.
Mótmælin á Torgi hins himneska friðar
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1986 ákvað Deng að óhagkvæm ríkisfyrirtæki gætu farið í gjaldþrot. Milljónir manna misstu vinnuna. Í landi sem hafði byggt á hugmyndum um að sjá um fólk frá vöggu til grafar. Fáheyrt var að menn gætu yfir höfuð orðið atvinnulausir. Á sama tíma og fólk horfði á allan uppgang „fríverslunarsvæðanna“ sem Deng hafði byggt upp. Mörgum fannst þeir vera af missa af tækifærum. Ójöfnuður jókst mjög. Árið 1988 ákvað Deng til að flýta enn frekar fyrir markaðsvæðingunni með því að afnema að mestu opinbert verðeftirlit. Verðbólga tók flug og enn jókst ójöfnuður. Glæpum fjölgaði mjög, Spilling varð mun meir áberandi ekki síst vegna þess erlenda fjármagns sem flæddi inn í landið. Ríkisvaldið skóp ekki það haldreipi sem því var ætlað. Óvissa jókst meðal almennings um framtíðina og að sama skapi ósætti út í stjórnvöld. Það var að sjóða upp úr.
Andlát hins frjálslynda Hu Yaobang þann 15. apríl 1989 ýtti undir mótmælaöldu í alþýðulýðveldinu. Mikill mannfjöldi kom saman á Torgi hins himneska friðar í Beijing til minningar um Hu, frjálslyndan siðbótarmann sem hafði verið hrakinn frá völdum tveimur árum áður af harðlínumönnum. Hópurinn samanstóð upphaflega aðallega af háskólanemum og krafðist umbóta í kerfinu, baráttu gegn misrétti og spillingu. Krafan um meira frelsi jókst þegar leið á mótmælin. Draga yrði úr völdum hins íhaldssama forsætisráðherra Li Peng. Mótmælin gegn kommúnisma fjögurra áratuga efldust og víða í Kína voru mótmæli. Þann 20. maí lýstu yfirvöld yfir herlögum kröfðust þess að mótmælendur yfirgæfu torgið. Hér klofnaði miðstjórn kommúnistaflokksins í tvær fylkingar. Annars vegar voru menn á borð við Zhao Ziyang, sem vildu meira frjálsræði og efnahagumbætur og viðræður við mótmælendur. Hins vegar voru var hópur með Li Peng forsætisráðherra sem töluðu fyrir beitingu hervalds gegn mótmælum.
Hafa verður í huga að á þessum tíma voru Sovétríkin í upplausn og kommúnisminn þar í landi kominn að endastöð. Það hafði eðlilega áhrif á pólitískar umræður valdhafa í Alþýðulýðveldinu í Kína. Íhaldssamari öfl tóku að vara við of miklu frelsi „borgaralegra afla“. Tryggja yðri stöðugleika kerfisins. Meðal annars birtist hörð ádeila á Deng frá liðsmanni Li Peng, í flokksblaðinu „Dagblaði fólksins“, þar sem Deng var talinn bera meginábyrgð á framgangi hægri aflanna síðasta áratuginn.[28]
Deng Xiaoping hafði hikað í um mánuð um notkun hervalds. Hann óttaðist drauga úr fortíðinni. Drauga glundroða og óstöðugleika. Á fundi leiðtoga flokksins sem haldinn var á heimili Deng sagði hann:
Auðvitað viljum við lýðræði, en við getum ekki komið því á í flýti. Ef einn milljarður manna stekkur til fjölflokkakerfis fáum við glundroða svipað borgarastríðinu sem við sáum í menningarbyltingunni. Það þarf ekki byssur í borgarastríði. Hnefar og kylfur duga vel.[29] |
Þann 17. maí úrskurðaði hann Li Peng í hag og heimilað valdbeitingu hersins. Deng hikaði engu að síður og hvatti Li Peng til lokatilraunar á samningum við stúdenta. Þeim viðræðum var sjónvarpað um allt alþýðulýðveldið. Viðræðurnar skiluðu engu. Daginn eftir var herinn sendur inn 4. júní.
Ekki er vitað um nákvæmt mannfall mótmælenda. Opinberar tölur segja að 200 manns hafi verið drepnir en Rauði Krossinn telur að 2.000 manns hafi fallið. Pólitísk afleiðing var að Zhao Ziyang, sem hingað til hafði verið talinn næsti arftaki Deng og var að komast að völdum, dvaldi í stofufangelsi í 15 ár allt til dauðadags árið 2005. Hann hafði talað fyrir aðgreiningu á kommúnistaflokknum og ríkinu, vildi draga úr skrifræði, spillingu og einkavæða ríkisfyrirtæki. Íhaldssamari öfl undir forystu Li Peng styrktu sig mjög. Í staðinn studdi Deng Jiang Zemin þáverandi borgarstjóra í Sjanghæ til valda í miðstjórn flokksins. Jiang hafði tekist að viðhalda allsherjarreglu í Sjanghæ-borg. Enn hélt þó Deng formennsku í hernefnd flokksins. Maóistarnir voru búnir að ná aftur völdum í alþýðulýðveldinu. Jiang Zemin fylgdi þeim. Nú átti að aftur að herða tök flokksins á öllu efnahagslífi.
Mótmælin og óeirðirnar í höfuðborginni voru mjög alvarlegt áfall fyrir Deng. Nú 87 ára varð Deng að koma hlutunum aftur í rétt horf. Hann fór til Sjanghæ til sinna gömlu liðsmanna og sótti einnig stuðning til hersins. Þar voru gamlir félagar og stuðningsmenn margir. Skilaboðin frá hernum voru mjög skýr: Þeir lýstu yfir stuðningi við Deng. Allir sem færu gegn honum færu gegn hernum. Þessi skilaboð til harðlínumanna flokksins áréttaði Deng þegar hann heimsótti herstöð í desember 1991, án allra flokksheimilda og var vel tekið.
Með stuðning hersins tryggan, heimsótti Deng 1992 Shenzhen borg, miðstöð efnahagsumbóta sinna. Í heimsókn sinni til Suður-Kína lýsti hann yfir að :„Án efnahagsumbóta og stefnunnar um opnun dyr Kína, efnahagsframfarir og bætt lífskjör væru allar leiðir lokaðar fyrir land okkar,“. Og á flokksráðstefnunni árið 1994 lét Jiang Zemin flokksformaður af stuðningi við maóistana og lýsti yfir stuðningi við efnahagsumbæturnar, nútímavæðingu landsins og markaðshagkerfi er byggði á opnun landamæranna. Deng hafði unnið.
Arfur og s��gulegt mat
[breyta | breyta frumkóða]Deng Xiaoping lést í Peking á 92 ára gamall þann 19. febrúar 1997. Hann hafði síðustu æviárin dregið sig út úr skarkala opinbers líf þar sem hann þjáðist af Parkinsonsveiki og gat vart haft samskipti við ættingja sína. Hann lét eftir sig eiginkonu sína, Zhuo Lin (lést 2009) og fimm börn: þrjár dætur (Deng Lin, Deng Nan og Deng Rong) og tvo syni (Deng Pufang og Deng Zhifang).
Þrátt fyrir háan aldur var Deng allt til dauðadags álitinn æðsti leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína. Jafnvel eftir dauða hans hefur Kommúnistaflokkur Kína fylgt stefnu hans í stórum dráttum.[31] Eftirmaður hans, Jiang Zemin, afhenti síðar völd til Hu Jintao forseta, en Hu er einnig talinn til liðsmanna gamla Deng.
Undir forystu Deng Xiaoping, tók Alþýðulýðveldið Kína með meira en milljarð íbúa, efnahagsframförum sem vart eiga sér sögulega hliðstæðu. Frá 1997 hefur verið árlegur hagvöxtur verið að meðaltali 10%. Það er þrátt fyrir mörg félagsleg vandamál sem eiga meðal annars rætur í efnahagsumbótum Deng.
Á móti þessum árangri í efnahags- og félagslegri þróun, hefur Deng Xiaoping sætt gagnrýni fyrir alræðismynd kommúnismans sem hann stóð fyrir og hlutverk hans í valdbeitingu gegn mótmælendum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Fáir deila þó um að stjórnmálastíll hans hafi verið mannúðlegri en forvera hans Maó Zedong. Ólíkt Maó lagði Deng ekki mikið upp úr því að upphefja persónu sína opinberlega og vart verður um það deilt að frjálsræði á valdatíma Deng var mun meira.
Eftirmæli leiðtogans Deng Xiaoping munu þó fyrst og síðast vera tengd þeim efnahagsumbótum sem hann barðist fyrir og árangri þeirra. Hundruð milljóna Kínverja frá fátækt til bjargálna á tveimur áratugum er árangur sem vart verður deilt um. Það gerir hann að einum merkilegasta stjórnmálamanni síðari hluta 20. aldar.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Yahuda (1993): 551-72.
- ↑ „„China's leaders"“. Books.google.ca.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 673-674.
- ↑ „China in the Era of Deng Xiaoping“. Books.google.ca.
- ↑ New China News Agency, Communist Party Literature & Document Office of China and A.S.M.: „The life of Deng Xiaoping“ Sjá vefheimild.
- ↑ Stewart, Whitney, Deng Xiaoping: Leader in a Changing China, 2001.
- ↑ „Exiled son who saved the state“. TSL Education Ltd.
- ↑ Yang (2008): 1-29. Opinberar tölur segja 14 milljónir. Aðrir hafa telja á milli 20 – 43 milljónir manna hafi dáið í manngerðri hungursneiðinni.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 522.
- ↑ Zhi-Sui (1994).
- ↑ 11,0 11,1 11,2 11,3 11,4 11,5 11,6 11,7 Li (2008).
- ↑ Chang og Halliday (2007): 674.
- ↑ MacFarquhar og Schoenhals (2006): 262.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 600. Í bók Chang og Halliday er fullyrt að þrjár miljónir manna hafi látið lífið í ofbeldisverkum menningarbyltingarinnar að um 100 milljónir hafi fyrir barðinu á ofsóknum af einhverju tagi.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 686.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 677 og 683.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 687.
- ↑ Chang og Halliday (2007): 694.
- ↑ „Flokksþing kínverskra kommúnista: Vilja sósíalískt markaðskerfi“ Morgunblaðið 233 tbl., 13. október 1992, bls. 1.
- ↑ Tilvitnun í Deng Xiaoping fengin úr bók Gitting (2005).
- ↑ Tilvitnun fengin úr bók Caeiro (2004).
- ↑ Yang (1996).
- ↑ FlorCruz (2008).
- ↑ Li (2008). Það voru Shenzhen, Zhuhai og Shantou í Guangdong héraði, og Xiamen í Fujian héraði. Allt Hainan hérað var síðan lýst „sérstakt fríverslunarsvæði“.
- ↑ „China Is a Private-Sector Economy“. Bloomberg BusinessWeek: Online Extra. Viðtal við hagfræðinginn Fan Gang en hann er einn þekktasti hagfræðingur Kína og ráðgjafi stjórnarinnar í Beijing og Alþjóðabankans.
- ↑ „Fighting Poverty: Findings and Lessons from China’s Success“[óvirkur tengill], World Bank, 2010. (Tekið af vef Alþjóðabankans þann 16. maí 2010.)
- ↑ Ravallion og Shaohua, 2005.
- ↑ Yiu-chung Wong: „From Deng Xiaoping to Jiang Zemin...“, bls. 198-199.
- ↑ Coldstream: China's Capitalist Revolution. 2008
- ↑ Coldstream: China's Capitalist Revolution. BBC viðtal 2008
- ↑ Útvarpsviðtal BBC við Powell lávarð 208.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]
|
|
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- People's Daily: Deng Xiaoping Æviferill Deng Xiaoping í „Dagblaði Fólksins“ opinberu málgagni Kommúnistaflokks Kína (á ensku).
- Opinber vefur Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína (á ensku) Geymt 11 febrúar 2010 í Wayback Machine
- Úr ræðum Deng Xiaoping (1938-1965) af opinberum vef Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína (á ensku) Geymt 15 desember 2010 í Wayback Machine
- Úr ræðum Deng Xiaoping (1975-1982) af opinberum vef Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína (á ensku) Geymt 15 desember 2010 í Wayback Machine
- Úr ræðum Deng Xiaoping (1982-1992) af opinberum vef Kommúnistaflokks Alþýðulýðveldisins Kína (á ensku) Geymt 15 desember 2010 í Wayback Machine