Agnes af Brandenborg
Agnes af Brandenborg (1257 – 29. september 1304) var drottning Danmerkur á 13. öld og síðar hertogaynja af Holtsetalandi.
Agnes var dóttir Jóhanns 1. markgreifa af Brandenborg og konu hans, Juttu af Saxlandi. Árið 1264, þegar hún var sjö ára, var hún heitbundin Eiríki klipping, Danakonungi, sem þá var fimmtán ára. Sagan segir að Eiríki hafi verið sleppt úr haldi í Brandenborg gegn því að lofa að giftast Agnesi án þess að hún fengi heimanmund. Þau giftust svo árið 1273. Elsti sonur þeirra, Eiríkur menved, fæddist ári síðar og þau eignuðust svo tvo aðra syni, Kristófer og Valdimar, og nokkrar dætur.
Eiríkur konungur var drepinn af dulbúnum tilræðismönnum síðla hausts 1286 og Eiríkur menved, sem var aðeins 12 ára, tók við en forsjármenn hans, þar á meðal móðir hans, stýrðu ríkinu í nafni hans.
Árið 1293, þegar Eiríkur var orðinn fullveðja og tekinn við stjórn ríkisins, giftist Agnes Geirharði 2. blinda, greifa af Holtsetalandi. Þau eignuðust einn son, Jóhann milda af Holtsetalandi. Agnes dó haustið 1304.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Agnes af Brandenburg“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. mars 2010.