Mayotte

sýsla í Frakklandi

Mayotte (shimaoríska: Maore; malagasíska: Maiôty) er frönsk handanhafssýsla í Kómoreyjaklasanum við norðurenda Mósambíksunds í Indlandshafi, á milli Madagaskar og Mósambík. Mayotte nær yfir eina stóra eyju, Grande-Terre (Maore), minni eyjuna Petite-Terre (Pamanzi) og nokkrar smáeyjar í kringum þær. Mayotte er ríkasta landið í Mósambíksundi og er áfangastaður fyrir ólöglega innflytjendur.

Mayotte
Fáni Mayotte Skjaldarmerki Mayotte
Fáni Skjaldarmerki
Staðsetning Mayotte
Höfuðborg Mamoudzou
Opinbert tungumál franska
Stjórnarfar Handanhafssýsla

Forseti sýsluráðs Soibahadine Ibrahim Ramadani
Frönsk sýsla
 • Keypt af Frakklandi 1843 
 • Handanhafssýsla 31. mars 2011 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

374 km²
0,4
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar

288.926
770/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 2,96 millj. dala
 • Á mann 9.600 dalir
Gjaldmiðill evra
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .yt
Landsnúmer +262

Land Mayotte er 374 km2 að stærð og þar búa tæplega 300.000 manns.[1] Eyjan er mjög þéttbýl með um 770 íbúa á ferkílómetra. Stærsta borgin er Mamoudzou á Grande-Terre. Dzaoudzi–Pamandzi-alþjóðaflugvöllurinn er staðsettur á Petite-Terre.

Mayotte er ein af handanhafssýslum Frakklands og ein af 18 sýslum Frakklands. Sem sýsla í Frakklandi er Mayotte hluti af Evrópusambandinu og gjaldmiðillinn er evra. Mayotte er ysta landsvæðið sem er hluti af Evrópusambandinu.

Rúmur helmingur íbúa talar shimaore sem er kómoreysk mállýska. Annað algengasta móðurmál íbúa er kibushi sem er náskylt máli Sakalava á Madagaskar. Franska er töluð sem annað mál og í manntali árið 2007 sögðust 63% íbúa yfir 14 ára kunna frönsku.[2] 97% íbúa Mayotte eru múslimar.

Fyrstu íbúar eyjarinnar komu frá Austur-Afríku. Síðar komu Arabar þangað og íbúar snerust til íslam. Soldánsdæmi var stofnað um 1500. Á 19. öld lagði Andriantsoly, fyrrum konungur Boina-ríkisins á Madagaskar, Mayotte undir sig. Frakkar keyptu Mayotte af honum árið 1841. Eyjan var þá fámenn og vanþróuð. Frakkar reyndu fyrst að byggja þar upp sykurplantekrur, en gekk það illa. Seinna tók ræktun ilmjurta (vetivergrass, sítrónugrass, sandalviðar og ilmberkju) við. Mayotte var eina eyjan í eyjaklasanum sem kaus að halda tengslunum við Frakkland í þjóðaratkvæðagreiðslum 1974 og 1976.[3] Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2009 var yfirgnæfandi meirihluti (95,2%) fylgjandi því að landið yrði frönsk handanhafssýsla sem það varð árið 2011.

Efnahagslega er Mayotte háð fjárhagsaðstoð frá Frakklandi. Verg landsframleiðsla á mann er aðeins 38% af því sem hún er á Réunion og 24% af því sem hún er í Frakklandi, en hún er samt tólf sinnum hærri en á Kómoreyjum. Samkvæmt skýrslu frá INSEE árið 2018 lifðu 84% íbúa undir fátæktarmörkum (sem miðast við €959 tekjur á heimili á mánuði) og 34% íbúa milli 15 og 64 ára aldurs voru atvinnulaus.[4] Árið 2019 var helmingur íbúa undir 17 ára aldri. Vegna fólksflutninga frá nágrannasvæðum eru 48% íbúa erlendir ríkisborgarar.[5]

Frá Mayotte

Allar eyjarnar eru saman kallaðar Mayotte (eða Maore), eftir stærstu eyjunni sem líka nefnist Grande-Terre. Meðal annarra eyja eru Petite-Terre (Pamanzi). Nafnið Maore er talið dregið af orðinu Mawuti sem er stytting úr arabísku جزيرة الموت Jazīrat al-Mawt sem merkir „dauðaeyja“ (kannski út af hættulegum rifum í kringum eyjuna). Nafnið varð Mayotta á portúgölsku og síðar Mayotte á frönsku. Uppruni heitisins er þó umdeildur.

Landfræði

breyta
 
Hæðakort af Mayotte sem sýnir kóralrifið.

Aðaleyjan, Grande-Terre, er jarðfræðilega elst Kómoreyja.[6] Hún er 39 km löng og 22 km breið og hæsti punktur hennar er Benarafjall, 660 metra hátt. Út af gosberginu er jarðvegur tiltölulega frjósamur á mörgum stöðum. Kóralrif sem liggur umhverfis eyjuna ver hana fyrir óvinaskipum og myndar búsvæði fyrir fiska. Dzaoudzi á Petite-Terre var höfuðborg Mayotte (og þar áður höfuðborg nýlendunnar Kómoreyja) til 1977 þegar hún var flutt til Mamoudzou á Grande-Terre. Petite-Terre er 10 km2 að stærð og stærsta eyjan við Mayotte.

Mayotte er hluti af Kómoreyjaklasanum sem er röð eyja sem liggur á hálfhringlaga upphækkun neðansjávar við enda Mósambíksunds. Eyjarnar eru 295 km vestan við Madagaskar og 67 km suðaustan við Anjouan sem stundum sést í góðu skyggni. Þær eru þaktar gróðri. Tvær stærstu eyjarnar, Grande-Terre og Petite-Terre, eru umkringdar 160 km löngu kóralrifi.Lónið innan við kóralrifið er um 1.500 km2 og mest 80 metra djúpt. Það hefur verið kallað „stærsta riflón í suðvesturhluta Indlandshafs“.[7] Hluti kóralrifsins er tvöfaldur sem er sjaldgæft. Það ver nær alla strönd Mayotte fyrir úthafsöldum og straumum, fyrir utan nokkur skörð, þar á meðal eitt sem nefnist „S-skarðið“. Í lóninu eru um hundrað litlar kóraleyjar, eins og Mtsamboro. Rifið er örugg höfn fyrir báta og hýsir fjölbreytt dýralíf.

Mayotte er um 374 km2 að stærð. Það er því minnsta handanhafssýsla Frakklands, á eftir Martinique sem er þrisvar sinnum stærri. Helstu eyjar Mayotte eru:

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Mayotte skiptist í sautján sveitarfélög og samsvarandi kantónur, nema hvað sveitarfélagið Mamoudzou skiptist í þrjár kantónur.

Tala á korti Nafn Stærð (km2) Íbúar Staðsetningarkort Tölusett kort
1 Dzaoudzi 6,66 17.831    
2 Pamandzi 4,29 11.442  
3 Mamoudzou 41,94 71.437  
4 Dembeni 38,8 15.848  
5 Bandrélé 36,46 10.282  
6 Kani-Kéli 20,51 5.507  
7 Bouéni 14,06 6.189  
8 Chirongui 28,31 8.920  
9 Sada 11,16 11.156  
10 Ouangani 19,05 10.203  
11 Chiconi 8,29 8.295  
12 Tsingoni 34,76 13.934  
13 M'Tsangamouji 21,84 6.432  
14 Acoua 12,62 5.192  
15 Mtsamboro 13,71 7.705  
16 Bandraboua 32,37 13.989  
17 Koungou 28,41 32.156  

Efnahagslíf

breyta
 
Landbúnaðarland á Mayotte. Helstu matjurtir eru kókospálma, banana, brauðaldin, papaja, mangó og kassava.

Evran er opinber gjaldmiðill á Mayotte.[8] Árið 2019 var verg landsframleiðsla á Mayotte að nafnvirði 2,64 milljarðar evra (2,96 milljarðar dala).[9] Sama ár var verg landsframleiðsla á mann að nafnvirði (ekki kaupmáttarjafnað) 9.600 evrur (10.800 dalir),[9][1] sem er átta sinnum hærra en á Kómoreyjum, en aðeins 42% af því sem hún er á Réunion og 26% af vergri landsframleiðslu á mann í Frakklandi. Lífskjör eru því verri en í Frakklandi. Í manntalinu 2017 voru 10% húsa á Mayotte án rafmagns, 29% voru ekki með rennandi vatn innandyra, og 54% heimila voru án klósetts innandyra.[10]

Landbúnaður á Mayotte býr við óvisssu og getur ekki keppt við Madagaskar eða Kómoreyjar vegna hærri launa. Helstu tækifæri sýslunnar liggja í ferðaþjónustu, en glæpatíðni stendur vexti hennar fyrir þrifum.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 INSEE. „Estimation de population par région, sexe et grande classe d'âge – Années 1975 à 2021“ (franska). Afrit af upprunalegu geymt þann 10. mars 2021. Sótt 22. mars 2021.
  2. „Mayotte : les langues en 2007 | Insee“. www.insee.fr. Sótt 16. júlí 2021.
  3. „Ce qu'il faut savoir sur Mayotte, le 101e département français“. LExpress.fr (franska). 12. mars 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. ágúst 2021. Sótt 5. ágúst 2021.
  4. Mayotte. Le gouvernement annonce 1,9 million d’euros pour le plan pauvreté à Mayotte.
  5. Patrick Roger, Le gouvernement craint un regain des tensions sociales à Mayotte , Le Monde, 20. júní 2019.
  6. Ornella Lamberti, "L'île aux parfums : mémoires d'une indépendante", dans Glitter – hors-série spécial nouveaux arrivants, Mayotte, 2017
  7. Zinke, J.; Reijmer, J. J. G.; Thomassin, B. A.; Dullo, W.-C.; Grootes, P. M.; Erlenkeuser, H. (2003). „Postglacial flooding history of Mayotte Lagoon (Comoro Archipelago, southwest Indian Ocean)“. Marine Geology. 194 (3–4): 181–196. Bibcode:2003MGeol.194..181Z. doi:10.1016/S0025-3227(02)00705-3.
  8. Minister of the Economy, Industry and Employment (France). „L'évolution du régime monétaire outre-mer“ (franska). Afrit af upprunalegu geymt þann 19. nóvember 2004. Sótt 30. nóvember 2008.
  9. 9,0 9,1 „Gross domestic product (GDP) at current market prices by NUTS 2 regions“. Eurostat. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. ágúst 2020. Sótt 22. mars 2021.
  10. INSEE. „Recensement 2017 - Quatre logements sur dix sont en tôle en 2017“.
   Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.