Heimspeki
Heimspeki kallast sú iðja mannsins að fást við grundvallarspurningar um veruleikann, tilvist og stöðu hans í alheiminum.[1] Þeir sem fást við heimspeki kallast heimspekingar og reyna þeir meðal annars að skýra inntak og tengsl hugtaka og fyrirbæra á borð við sannleika, merkingu og tilvísun, skilning, þekkingu, skoðun, vísindi, skýringu, lögmál, tegund, samsemd, eðli, eiginleika, orsök, rök, vensl, nauðsyn, möguleika, lög, gildi, rétt, rangt, gott, illt, hamingju, dygð, skyldu, athöfn, atburð, réttlæti, réttindi, frelsi, vináttu, ást, fegurð, list og svona mætti lengi áfram telja. En heimspekin er ekki hvaða glíma sem er við þessar spurningar sem á okkur leita, heldur er hún fyrst og fremst tilraun til að fást við þessar spurningar af einurð og heilindum. Hún er ekki einber opinberun einhverrar skoðunar, heldur er hún ætíð rökstudd, jafnvel þótt stundum séu rökin ósögð og undanskilin og þau verði að lesa á milli línanna.
Við þetta má bæta að heimspeki er ekki bara samansafn spurninga sem raunvísindin eiga eftir að svara, því túlkun á niðurstöðum vísindanna getur beinlínis oltið á heimspekilegri afstöðu sem liggur tilraunum og túlkun þeirra til grundvallar. Þess vegna geta vísindin einfaldlega ekki svarað öllum spurningum heimspekinnar án þess að gefa sér svörin. Á hinn bóginn mætti segja að heimspekin sé sjálf ákveðin grein eða ákveðinn þáttur vísindanna eða framhald þeirra; hún hefur sjálf eitthvað fram að færa til heildarmyndar okkar af sjálfum okkur og heiminum, lífinu og tilverunni.
Heimspekilegar bókmenntir einkennast öðru fremur af röksemdafærslum, sem eru notaðar til að setja fram kenningar um viðfangsefni heimspekinnar. Þessar röksemdafærslur fela yfirleitt í sér hugleiðingar um andstæð eða gagnstæð viðhorf og meinta galla á þeim.
Upphaflega náði hugtakið heimspeki yfir mun víðara svið viðfangsefna en það gerir í dag. Til dæmis veltu forverar Sókratesar fyrir sér spurningum um uppruna og myndun alheimsins, eðli efnisheimsins og uppruna tegundanna. Þessar vangaveltur urðu að endingu að grunni náttúruvísindanna, sem nefndust áður „náttúruheimspeki“ eða „náttúruspeki“.
Með tilkomu háskólanna tók heimspekin á sig mynd fræðigreinar en frá og með 20. öld hefur hún einkum þrifist innan veggja háskólanna.
Óformlega getur orðið „heimspeki“ vísað til almennrar heimsmyndar eða tiltekinnar siðferðissannfæringar eða skoðunar.
Orðsifjar
breytaOrðið „heimspeki“ kann að vera tökuþýðing úr þýsku enda svipar því til orðsins „Weltweisheit“ hvað samsetningu varðar. Það orð er ekki lengur í almennri notkun í þýsku. Áður fyrr þekktist einnig orðið „ástarspekt“ en það var þýðing á gríska orðinu φιλοσοφία (fílo-sofía).[2] Af forngríska orðinu er komið enska orðið „philosophy“, líkt og skyld orð í öðrum málum. Orðið merkir „ást á visku“. Í nútímasamhengi er það notað til að vísa til orðræðna um hvað er til, hvað þekking er (og hvort hún er möguleg) og hvernig maður ætti að lifa lífinu.
Skilgreining
breytaÞað hefur reynst afar erfitt að finna skilgreiningu á heimspeki vegna þess hve margvíslegar hugmyndir hafa verið kallaðar heimspeki. Eigi að síður má reyna að lýsa einkennum hennar að einhverju marki. Penguin Dictionary of Philosophy skilgreinir heimspeki sem rannsókn á „almennustu og mestu grundvallarhugtökum og -lögmálum sem eru fólgin í hugsun, athöfnum og raunveruleikanum“. Oxford Dictionary of Philosophy tekur í sama streng.[3] Oxford Companion to Philosophy lýsir heimspeki meðal annars sem kerfisbundinni og gagnrýninni rökhugsun um eðli heimsins almennt, um réttmæti skoðana manns og breytni manns í lífinu.[4]
Flestir heimspekingar eru sammála um að aðferð heimspekinnar felst í rökrænni orðræðu, enda þótt sumir heimspekingar hafi dregið í efa að maðurinn sé fær um rökhugsun, eins og henni er venjulega lýst.
The Penguin Encyclopedia segir að heimspeki sé frábrugðin vísindunum að því leyti að spurningum heimspekinnar sé ekki hægt að svara með tilraunum og athugunum og frábrugðin trúarbrögðum að því leyti að heimspekin leyfi ekki blinda trú eða opinberun. Um þetta má þó deila. Til dæmis segir í Oxford Dictionary of Philosophy: „Andi greinarinnar á síðari hluta 20. aldar ... kýs fremur að sjá heimspekilegar vangaveltur sem framhald af bestu venjum allra sviða vitsmunalegrar athugunar.“
Markmið heimspekinnar, samkvæmt Penguin Dictionary of Philosophy, er „hlutlaus öflun þekkingar hennar sjálfrar vegna“.
Undirgreinar heimspekinnar
breytaÞað er ekkert almennt samkomulag um hverjar séu megingreinar heimspekinnar. Í bókinni The Story of Philosophy telur Will Durant rökfræði, þekkingarfræði, siðfræði, fagurfræði og frumspeki sem megingreinar hennar en þessi svið heimspekinnar skarast á marga vegu og margar heimspekilegar hugmyndir falla ekki ljúflega í neinn þessara flokka.
Sérhver undirgrein hefur sínar eigin grundvallarspurningar.
- Rökfræðin spyr: Hvernig greinum við á milli gildra og ógildra röksemdafærslna?
- Þekkingarfræðin spyr: Er þekking möguleg? Hvernig vitum við hvað við vitum?
- Siðfræðin spyr: Er munur á siðferðilega réttum og siðferðilega röngum athöfnum, gildum eða stofnunum? Hvaða athafnir eru réttar og hverjar eru rangar? Eru gildi algild eða afstæð? Hvernig er best að lifa lífinu? Er til staðlandi gildi sem er grundvöllur allra annarra gilda? Eru gildi 'í' heiminum (eins og stólar og borð) og ef ekki, hvaða skilningi eigum við að skilja verufræðilega stöðu þeirra?
- Fagurfræðin spyr: Hvað er fegurð?
- Frumspekin spyr: Hvað er raunveruleiki? Hvað er til og í hvaða skilningi er það til? Eru hlutir til óháð skynjunum?
Hver og ein þessara undirgreina hefur sínar eigin undirgreinar og/eða eru grundvöllur annarra minni og sértækari sviða heimspekinnar. Önnur meginsvið heimspekinnar eru:
Saga heimspekinnar
breytaSögu vestrænnar heimspeki er venjulega skipt í þrjú megintímabil: fornaldarheimspeki, miðaldaheimspeki og nýaldarheimspeki.[5] Sumir heimspekingar hafa haldið því fram að nýtt tímabil sé hafið, „póstmóderníska“ tímabilið. Austræn heimspeki var lengst af óháð vestrænni heimspeki.
Fornaldarheimspeki
breytaForngrískri heimspeki er venjulega skipt í þrjú tímabil: forvera Sókratesar, klassíska heimspeki og helleníska heimspeki.[6] Einnig er oft talað um rómverska heimspeki sem sérstakt tímabil þótt rómversk heimspeki sé í raun vart annað en áframhald hellenískrar heimspeki innan Rómaveldis. Þá er tíminn frá 3. öld stundum nefndur síðfornöld og heimspeki þess tíma heimspeki síðfornaldar.
Forverar Sókratesar
breytaTímabil forvera Sókratesar einkenndist af frumspekilegum vangaveltum og tilraunum til þess að finna „uppsprettuna“, það sem lægi veruleikanum til grundvallar.[7] Meðal mikilvægra heimspekingar þessa tímabils eru Þales, Anaxímandros, Anaxímenes, Pýþagóras, Herakleitos, Xenófanes, Parmenídes, Zenon frá Eleu, Melissos, Empedókles, Anaxagóras, Levkippos og Demókrítos.
Á grundvelli greiningar á sögninni „að vera“ leiddi Parmenídes rök að því að ekki væri til neinn mismunur og þar með væru hreyfing og breyting einungis tálsýn. Fornmenn sjálfir álitu rök Parmenídesar sýna að tilraunir fyrstu heimspekinganna (Þalesar, Anaxímandrosar, Anaxímenesar) til þess að finna einhverja eina uppsprettu sem útskýrði margbreytileika heimsins væru dauðadæmdar. Í kjölfarið komu fram fjölhyggjukenningar sem áttu að koma til móts við Parmenídes að einhverju leyti. Uppspretturnar voru nú taldar fleiri en ein (frumefnin fjögur (eða „ræturnar“ fjórar) hjá Empedóklesi, og ótalmörg „samkynja“ efni hjá Anaxagórasi) og samspil þeirra átti að útskýra margbreytileika heimsins og möguleikann á hreyfingu og breytingu en sjálfar voru uppspretturnar taldar „parmenídískar“ verundir í einhverjum skilningi, varanlegar og óbreytanlegar.
Heimildir okkar um skoðanir, kenningar og rök þessara manna eru afar brotakenndar en ekkert heildsætt rit um heimspeki hefur varðveist frá þessum tíma.
Klassísk heimspeki
breytaMestar heimildir eru frá klassíska tímabilinu en mikilvægustu heimspekingar tímabilsins voru Sókrates, Platon og Aristóteles. Þeir síðastnefndu eru meðal áhrifamestu heimspekinga sögunnar og eru þeir hugsuðir sem hvað mest hafa mótað heimspekina og viðfangsefni hennar.
Sagt er að Sókrates hafi fyrstur fengist við siðfræði en þó virðist Demókrítos (sem var samtímamaður Sókratesar) einnig hafa gert það.[8] Í ritum Platons er persónan Sókrates svo látinn halda fram ýmsu öðru en því sem talið er að hinn sögulegi Sókrates hafi haldið fram og veldur það erfiðleikum að segja með vissu hvaða skoðanir hinn raunverulegi Sókrates hafði. Einkum virðist mega eigna honum tvennt. Annars vegar að enginn sé vísvitandi illur; hins vegar að dygð sé þekking.
Platon var lærisveinn Sókratesar.[9] Hann fékkst við nánast öll svið heimspekinnar en frægust kenninga hans er sennilega frummyndakenningin. Platon taldi að efnisheimurinn væri hverful og léleg eftirlíking af fullkomnum heimi óhlutbundinna frummynda. Raunveruleg þekking hlyti að vera þekking á frummyndunum.
Aristóteles var nemandi Platons.[10] Hann fékkst við svo að segja öll svið heimspekinnar og er heimspeki hans afar kerfisbundin. Aristóteles fékkst einnig við vísindi og stundaði meðal annars rannsóknir í líffræði, líffærafræði, dýrafræði, veðurfræði, stjörnufræði, sálfræði, hagfræði og stjórnmálafræði. Hann fann upp rökfræði sem fræðigrein. Siðfræði Aristótelesar hefur verið endurlífguð á 20. öld og haldið á lofti meðal annars af G.E.M. Anscombe, Philippu Foot, Alasdair MacIntyre og Rosalind Hursthouse.
Hellenísk heimspeki
breytaHellenísk heimspeki[11] er strangt tekið einungis heimspeki helleníska tímans, þ.e. frá dauða Alexanders mikla árið 323 f.o.t. (í heimspeki er miðað við dauða Aristótelesar árið síðar) til ársins 31 f.o.t., en orðið er stundum einnig notað um rómverska heimspeki og heimspeki síðfornaldar enda urðu ekki skörp skil í sögu heimspekinnar með endalokum helleníska tímans. Meðal mikilvægustu hugsuða og skóla þessa tímabils eru Zenon frá Kítíon, Krýsippos, Arkesilás, Karneades, Epikúros, Pyrrhon, Panætíos, Póseidóníos, Epiktetos, Seneca, Markús Árelíus og Sextos Empeirikos. Nýplatonistinn Plótínos er venjulega talinn til síðfornaldar.
Á hellenískum tíma blómstruðu einkum þrír skólar: epikúrismi, stóuspeki og efahyggja.
Epikúrismi
breytaEpikúrisminn var heimspeki Epikúrosar en Epikúros var undir miklum áhrifum frá Demókrítosi.[12] Epikúros hélt fram rammri efnishyggju og varði eindahyggjuna (atómismann) sem Levkippos og Demókrítos höfðu fyrstir sett fram. Hann hélt því einnig fram að ánægjan væri hin æðstu gæði en Epikúros taldi að andleg ánægja væri æðri líkamlegri ánægju og að í öllu skyldi gæta hófs.
Stóuspeki
breytaUpphafsmaður stóuspekinnar[13] var Zenon frá Kítíon en Krýsippos var annar mikilvægur málsvari hennar. Stóumenn voru efnishyggjumenn en þó ekki eins afdráttalausir og epikúringar. Þeir kenndu að lífinu skyldi lifað í samræmi við náttúruna og örlögin. Stóumenn voru að vissu leyti algyðistrúar og töldu að heimurinn allur væri guðlegur, hann væri gegnsýrður af skynseminni, logos, en það hugtak fengu þeir frá Herakleitosi. Þeir kenndu að dygðin væru einu gæðin og að löstur væri eina bölið, allt annað væri hlutlaust og hvorki bætti við eða drægi úr hamingju manns.[14] Þetta viðhorf mildaðist er fram liðu stundir, meðal annars hjá Panætíosi og Póseidóníosi sem blönduðu stóuspekinni áhrif frá Platoni. Stóuspekin var gríðarlega vinsæl í Rómaveldi og hafði mikil áhrif á menn eins og Cíceró og Seneca og Markús Árelíus voru stóískir heimspekingar. Á nýöld hafði stóuspekin talsverð áhrif á Baruch Spinoza.[15]
Efahyggja
breytaHeimspekingurinn Ænesidemos,[16] sem lítið er vitað um annað en að hann var akademískur heimspekingur á 1. öld f.o.t., sagði skilið við akademíuna (sem hafði orðið að efahyggjuskóla á 3. öld f.o.t. en var farin að mildast í efahyggjunni á hans tíma) og sameinaði áhrif frá eldri akademískum heimspekingum (Arkesilási og Karneadesi) við heimspeki Pyrrhons, sem hann sagði að væri raunverulegur efahyggjumaður. Þessi efahyggja heitir pyrrhonismi í höfuðið á Pyrrhoni[17] og er varðveitt í ritum Sextosar Empeirikosar. Þar koma saman efahyggja Arkesilásar og Karneadesar og hugmynd Pyrrhons um sálarró. Þessi heimspeki hafði sáralítil áhrif í fornöld en gríðarleg áhrif á nýöld, meðal annars á Michel de Montaigne sem síðan hafði áhrif á René Descartes.
Heimspeki síðfornaldar
breytaÁ 3. öld fékk heimspeki Platons öflugan nýjan málsvara í Plótínosi.[18] Þessi heimspeki er nú nefnd nýplatonismi.[19] Nýplatonisminn hafði gífurleg áhrif á kristnina og kristna hugsuði.
Evrópsk miðaldaheimspeki
breytaMeð falli Vestrómverska ríkisins hófust miðaldir og dögun kristinnar heimspeki, íslamskrar heimspeki og gyðinglegrar heimspeki.
Á miðöldum varð til kristin skólaspeki, með höfundum á borð við Ágústínus kirkjuföður, Boethius, heilagan Anselm frá Kantaraborg, Robert Grosseteste, Albertus Magnus, Roger Bacon, Bonaventure, Thomas Aquinas, John Duns Scotus, William af Ockham, Nikulás af Cusa og Francisco Suárez. Heimspekingarnir í kristnu skólaspekihefðinni og heimspekingar innan annarra meginstrauma vestrænna trúarbragða, svo sem gyðinglegu heimspekingarnir Saadia Gaon og Maimonides, og íslömsku heimspekingarnir Avicenna, Al-Ghazali og Averroes áttu margvísleg samskipti. Þessar trúarhefðir fengust við spurningar um tengsl mannsins við guð.
Heimspeki þessa tímabils einkennist af greiningu á eðli og eiginleikum guðs; frumspekilegum pælingum um verundir, eðli og tilfallandi eiginleika, form og skiptanleika; og rökfræði og málspeki.
Austræn heimspeki
breyta„Austræn heimspeki“ vísar til þeirra heimspekihefða sem áttu uppruna sinn á Indlandi, í Persíu, Miðausturlöndum og Kína.
Uppruni hindúískrar heimspeki má rekja til veddískra pælinga (um 1500 f.o.t.) um alheiminn og Rta - alheimsskipulag. Meðal annarra megintexta sem snerta á heimspekilegum efnum eru Upanishads og Bhagavad Gita, frá því um 1000 f.o.t. til 500 f.o.t. Um svipað leyti þróuðust shramana skólarnir, þeirra á meðal jainismi og búddismi.
Í Persíu komu kenningar Saraþústra fram um 900 f.o.t., en þær voru grundvöllur írönsku greinar indo-írönsku heimspekihefðarinnar.
Í Kína komu Tao Te Ching Lao-Tse og rit Konfúsíusar fram um 600 f.o.t., um svipað leyti og forverar Sókratesar hófu að rita um heimspeki í Grikklandi.
Nýaldarheimspeki
breytaEndurreisnartíminn
breytaÁ endurreisnartímanum bárust grísk handrit í auknum mæli úr austri vestur til Ítalíu. Handritunum fjölgaði með falli Konstantínópel og Austrómverska ríkisins árið 1453. Í kjölfarið jókst þekking á grískri heimspeki til muna í Vestur-Evrópu. Mikilvægustu höfundarnir voru Platon og Aristóteles og ýmsar heimildir um stóuspeki og epikúrisma en ekki síst rit Sextosar Empeirikosar. Grísk efahyggja hafði þónokkur áhrif á ýmsa hugsuði, meðal annars Michel de Montaigne (1533 – 1592) og Francisco Sanches (1551 – 1623).[20]
Miðaldaheimspeki hafði einkum snúist um rök frá kennivaldi og greiningu á fornum textum með aðstoð aristótelískrar rökfræði. Á endurreisnartímanum komu fram fjölmargar nýjar hugmyndir sem dróu í efa kennivaldið. Roger Bacon (1214 – 1294?) var meðal fyrstu höfundanna sem hvöttu til þess að kennivaldið yrði reynt með tilraunum og á grundvelli skynseminnar. Niccolò Machiavelli (1469 – 1527) ögraði hefðbundnum hugmyndum um siðferði. Francis Bacon (1561 – 1626) skrifaði til stuðnings vísindalegum aðferðum í heimspekilegum athugunum.
Rökhyggja og raunhyggja
breytaRené Descartes (1596 – 1650), sem oft er nefndur faðir nútímaheimspeki, lagði til að heimspekin byrjaði með róttækri efahyggju um möguleikann á öruggri þekkingu.[21] Árið 1641, í Hugleiðingum um frumspeki, notfærði hann sér þessa aðferðafræðilegu efahyggju með það að markmiði að freista þess að finna traustan grundvöll þekkingar.[22] Hann valdi sem grundvöll heimspeki sinnar hina frægu fullyrðingu cogito ergo sum („ég hugsa, þess vegna er ég“). Síðan reyndi hann að endurbyggja kerfisbundna þekkingu á þessari meintu óvéfengjanlegu staðreynd. Nálgun hans varð þekkt sem rökhyggja og hafði áhrif á heimspekinga eins og Baruch Spinoza, Gottfried Leibniz og Christian Wolff sem voru einnig rökhyggjumenn.
John Locke[23] (1632 – 1704) brást við vinsældum rökhyggjunnar í bók sinni An Essay Concerning Human Understanding, sem kom út árið 1689. Þar setti hann fram einhvers konar náttúruhyggju á grundvelli vísindalögmála. Rit Davids Hume, A Treatise of Human Nature, (1739 – 1740) sameinaði náttúruhyggju anda efahyggjunnar og þessi tvö stef saman sameinuðu þá hefð innan heimspekinnar sem varð þekkt undir nafninu raunhyggja.[24] Aðrir merkir raunhyggjumenn voru Thomas Hobbes og George Berkeley.
Til einföldunar er stundum sagt að deilan milli rökhyggju- og raunhyggjumanna hafi öðru fremur snúist um spurninguna hvort fólk hefði einhverjar svonefndar „áskapaðar hugmyndir“ eða ekki. Raunhyggjumenn svöruðu þeirri spurningun neitandi en rökhyggjumenn játandi. Spurningin hefur vaknað á ný í öðrum búningi í kjölfar kenninga bandaríska málvísindamannsins Noams Chomsky.
Á 17. og 18. öld fór trúarleg heimspeki ekki með stórt hlutverk í togstreitu veraldlegrar heimspeki, enda þótt fræg tilraun Berkeleys til að hrekja kenningar Isaacs Newton sé undantekning. Meðal áhrifamikilla trúarlegra hugsuða þessa tíma voru Blaise Pascal, Joseph Butler og Jonathan Edwards. Meðal annarra mikilvægra höfunda, sem passa ekki í þessi mót, voru Jean-Jacques Rousseau og Edmund Burke. Þessir einstaklingar eru forboði um þá aðgreiningu og sérhæfingu á ólíkum sviðum heimspekinnar sem átti sér stað á tuttugustu öld.
Kenningar um ríkisvaldið
breytaHobbes og Locke settu báðir fram kenningar um samfélagssáttmála.[25] Slíkar hugmyndir komu fyrst fram hjá Platoni sem færði rök fyrir slíkri kenningu í samræðunni Kríton en gagnrýndi hana síðar í Ríkinu. Epikúros hafði einnig haldið fram kenningu um samfélagssáttmála en eigi að síður voru kenningar um samfélagssáttmála ekki mjög áhrifamiklar fyrr en Hobbes gaf út rit sitt Leviathan árið 1651 en æ síðan hafa kenningar um samfélagssáttmála notið töluverðra vinsælda. Hobbes taldi að ríkisvald yrði til með þeim hætti að fólk í ríki náttúrunnar gæfi eftir hluta af náttúrulegum réttindum sínum til þess að njóta aukinnar verndar.[26] Locke taldi, ólíkt Hobbes, að samfélagssáttmálinn gilti einungis um tiltekna tegund ríkisvalds og að þegnarnir gætu komið sér saman um að breyta eða afnema ríkisvaldið. Locke lagði áherslu á rétt þegnanna til uppreisnar gegn hvers kyns ofríki. Heimspekingarnir Jean-Jacques Rousseau (1712 – 1778) og Immanuel Kant (1724 – 1804) settu einnig fram kenningar um samfélagssáttmála og höfðu ásamt Hobbes og Locke töluverð áhrif, meðal annars á stofnfeður Bandaríkjanna. Á 20. öld er bandaríski heimspekingurinn John Rawls (1921 – 2002) að líkindum frægasti kenningasmiðurinn sem nýtti sér hugmyndina um samfélagssáttmála.[27]
Kant og Kóperníkusarbyltingin í heimspeki
breytaImmanuel Kant[28] samdi rit sitt Gagnrýni hreinnar skynsemi (Kritik der reinen Vernunft) (1781, 2. útg. 1787) til þess að reyna að sætta raunhyggju og rökhyggju og veita nýjan grundvöll til rannsókna í frumspeki. Sjálfur sagði Kant að rit Humes hefði vakið sig af kreddublundi. Ætlun Kants með þessu verki var að líta á hvað við vitum og íhuga síðan hvað hlyti að vera satt um hvernig við vitum það. Stór hluti þessa verkefnis fólst í að afhjúpa takmörk mannlegrar þekkingar. Kant tók Evklíð sér til fyrirmyndar en játaði að endingu að hrein skynsemi nægði ekki til að uppgötva öll sannindi. Johann Gottlieb Fichte, Friedrich Schelling og Arthur Schopenhauer héldu starfi Kants að einhverju leyti áfram.
Heimspeki 19. aldar
breytaÁrin 1789 – 1815 voru mikill umbrotatími í sögu Evrópu. Bylting og stríð breyttu menningu álfunnar og gerðu mögulegar verulegar efnahagslegar og pólitískar breytingar. Evrópsk heimspeki átti þátt í að móta hugmyndafræðina að baki mörgum breytinganna en varð jafnframt fyrir áhrifum vegna þessara breytinga.
Þýska hughyggjan
breytaHeimspeki Kants, sem er nefnd forskilvitleg hughyggja, varð seinna sértækari og almennari, í höndunum á þýsku hughyggjumönnunum. Þýsk hughyggja náði vinsældum í kjölfarið á útgáfu G.W.F. Hegels á Fyrirbærafræði andans (Phänomenologie des Geistes) árið 1807. Í ritinu heldur Hegel því fram að markmið heimspekinnar sé að koma auga á mótsagnirnar sem blasa við í mannlegri reynslu (sem verða til, meðal annars, vegna þess að menn viðurkenna bæði að sjálfið sé virkt, huglægt vitni og óvirkur hlutur í heiminum) og að losa okkur við þessar mótsagnir með því að samræma þær. Hegel sagði að sérhver staða (thesis) skapaði eigin andstöðu (antithesis) og að úr þeim tveimur yrði til niðurstaða (synthesis), ferli sem er þekkt sem „hegelsk þrátt“. Meðal heimspekinga í hegelsku hefðinni eru Ludwig Andreas Feuerbach og Karl Marx.
Aðrir straumar í heimspeki 19. aldar
breytaUm miðbik 19. aldar kom fram mikil gagnrýni á hegelska heimspeki frá danska heimspekingnum Søren Kierkegaard (1813 – 1855), sem einnig gagnrýndi dönsku kirkjuna fyrir innantóm formlegheit.[29] Kierkegaard er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar sem varð vinsæl heimspekistefna á 20. öld. Heimspeki Kierkegaards er stundum lýst sem „kristilegri tilvistarspeki“ eða „tilvistarspekilegri sálarfræði“.
Annar mikilvægur hugsuður á síðari hluta aldarinnar var Friedrich Nietzsche (1844 – 1900). Nietzsche var einnig gagnrýninn á þýska hughyggjumenn sem og á viðteknar siðferðishugmyndir og á trúarbrögðin.[30] Frægasta hugmynd Nietzsches er hugmynd hans um „ofurmennið“, sem hefur sig upp yfir „þrælasiðferðið“ og skilgreinir forsendur eigin tilvistar.
Breski heimspekingurinn John Stuart Mill[31] (1806 – 1873) hélt áfram raunhyggjuhefðinni þar í landi en árið 1843 kom út eftir hann ritið Rökkerfi (A System of Logic) þar sem hann setti fram fimm lögmál um aðleiðslu, sem áttu að varpa ljósi á orsakavensl. Lögmálin eru nefnd aðferð Mills. Í siðfræði setti Mill fram nytjastefnuna sem er leikslokasiðfræði í anda Jeremys Bentham en hugmyndin hafði upphaflega komið fram hjá David Hume.[32] Nytjastefnan varð gríðarlega vinsæl siðfræði í hinum enskumælandi heimi og var ríkjandi kenning fram á síðari hluta 20. aldar. Mill varði frjálshyggju í ritinu Frelsið (On Liberty), sem kom út árið 1859, og mælti fyrir kvenréttindum í ritinu Kúgun kvenna (The Subjection of Women), sem kom út árið 1869 og markaði upphaf feminískrar frjálshyggju.
Ameríska gagnhyggjan
breytaSeint á 19. öld varð til ný heimspeki í nýja heiminum. Charles Sanders Peirce (1839 – 1914) og William James (1842 – 1910) eru taldir frumkvöðlar þeirrar stefnu sem nefnist gagnhyggja[33] (e. pragmatism), sem kynnti til sögunnar það sem síðar nefndist verkhyggja, það er að segja sú hugmynd að það sem sé mikilvægt fyrir góða (vísindalega) kenningu sé gagnsemi hennar en ekki hversu vel hún endurspeglar raunveruleikann. Meðal hugsuða innan þessarar hefðar eru John Dewey, George Santayana og C.I. Lewis. Heimspekingarnir Henri Bergson og G.E. Moore voru um margt sama sinnis og gagnhyggjumennirnir enda þótt þeir séu venjulega ekki sjálfir taldir til gagnhyggjumanna. Á 20. öld hefur gagnhyggjan átt málsvara á borð við Richard Rorty og Hilary Putnam sem hafa farið með hana á nýjar brautir.[34]
Heimspeki 20. aldar
breyta20. öldin einkenndist af klofningi heimspekinnar í rökgreiningarheimspeki og svonefnda meginlandsheimspeki en hvor tveggja á rætur sínar að rekja til ákveðinnar þróunar í heimspeki seint á 19. öld.
Meginlandsheimspekin sótti einkum innblástur sinn til þýsku hughyggjunnar og til hugsuða á borð við Sören Kierkegaard (1813 – 1855), Friedrich Nietzsche (1844 – 1900), Franz Brentano (1838 – 1917) og Edmund Husserl (1859 – 1938). Hún blómstraði í fyrstu einkum á meginlandi Evrópu og hlaut þaðan nafnið.[35]
Rökgreiningarhefðin spratt upp úr tilraunum heimspekinga til að finna traustari grunn fyrir rökfræðina og til að smætta alla stærðfræði í rökfræði sem og frá áhuga þeirra á máli og merkingu.[36] Rökgreiningarheimspekingar sóttu sumir innblástur sinn í enska raunhyggjuhefð, meðal annars til Davids Hume (1711 – 1776) og Johns Stuarts Mill (1806 – 1873), enda þótt mikilvægir hugsuðir rökgreiningarhefðarinnar kæmu frá meginlandi Evrópu.[37]
Rökfræðin í fyrirrúmi
breytaÞegar Bertrand Russell[38] og Alfred North Whitehead gáfu út ritið Principia Mathematica árin 1910 – 1913 varð stærðfræðileg rökfræði miðlæg í frumspekilegum rökræðum en slíku hlutverki hafði hún ekki gegnt áður. Áður höfðu Bernard Bolzano og Gottlob Frege[39] hafist handa við að skapa rökfræðinni traustari grundvöll en það var ekki fyrr en Principia kom út sem heimspekingar fóru að gefa þessu verkefni gaum. Stærðfræðileg rökfræði var frábrugðin aristótelískri rökfræði í nokkrum mikilvægum atriðum. Til dæmis var fullyrðing sem leiddi af sér aðra sanna fullyrðingu talin vera sönn fullyrðing, hvort sem tilgátan var rétt eða ekki. Með auknum áhuga á stærðfræðilegri rökfræði reis rökfræðileg raunhyggja til vinsælda ásamt skyldum stefnum, sem áttu allar sameiginlegt að treysta á reynsluathuganir. Heimspekingar á borð við Rudolf Carnap (1891 – 1970) og Karl Popper (1902 – 1994) álitu einungis sannreynanlegar eða hrekjanlegar fullyrðingar vera ósvikna heimspeki. Allt sem ekki var hægt að leiða af prófanlegum fullyrðingum var álitið vera hjátrú eða kredda.
Fyrirbærafræði og túlkunarfræði
breytaÁ sama tíma og rökfræðin var að ryðja sér rúms í Ameríku og á Bretlandi varð til önnur hreyfing á meginlandi Evrópu. Undir áhrifum frá Franz Brentano þróaði Edmund Husserl nýja aðferð til að rannsaka mannleg vandamál í ritum sínum Röklegar rannsóknir (Logische Untersuchungen) (1900 – 1901) og Hugmyndir um hreina fyrirbærafræði og fyrirbærafræðilega heimspeki (Ideen zu einer reinen Phänomenologie und phänomenologischen Philosophie) (1913). Aðferðin, sem nefnist fyrirbærafræði, var notuð til að rannsaka smáatriði mannlegrar reynslu og meðvitundar til þess að komast að mestu grundvallar staðreyndum um mannlega tilvist. Rannsóknin fól ekki einvörðungu í sér athuganir á því hvernig heimurinn kemur okkur fyrir sjónir heldur einnig athuganir á hugsunum manns og hvar og hvernig þær verða til. Martin Heidegger (1889 – 1976) og Maurice Merleau-Ponty (1908 – 1961) þróuðu þessa aðferð áfram.
Heidegger víkkaði út rannsóknarsvið fyrirbærafræðinnar til að koma orðum að heimspekilegri túlkunarfræði. Túlkunarfræði er aðferð við að túlka sögulega texta með því að leiða hugann að því hvaða hugsanir höfundurinn hljóti að hafa hugsað að gefnum þeim áhrifum sem höfundurinn var líklegur til að hafa orðið fyrir á sínum tíma og í sínu umhverfi. Heidegger lagði áherslu á tvö ný atriði í heimspekilegri túlkunarfræði: Að lesandinn nemur merkingu textans í nútímanum og að verkfæri túlkunarfræðinnar megi nota til að túlka meira en bara texta (til dæmis „félagslegan texta“). Hans-Georg Gadamer (1900 – 2002) og Paul Ricoeur (1913 – 2005) lögðu síðar sitt af mörkum til heimspekilegrar túlkunarfræði.
Tilvistarspeki
breytaUm miðja 20. öld þróaðist tilvistarspekin eða existentíalisminn í Evrópu, sem var vinsæl heimspeki með rætur að rekja til 19. aldar í verkum Sørens Kierkegaard og Friedrichs Nietzsche. Tilvistarspekin þróaðist einkum í Frakklandi og Þýskalandi. Kierkegaard, sem var danskur heimspekingur og er almennt talinn faðir tilvistarspekinnar, hélt því fram að sannleikur væri huglægur, í þeim skilningi að það sem er mikilvægast lifandi veru eru spurningar er varða innri tengsl hennar við tilvistina. Hlutlægur sannleikur (til dæmis í stærðfræði) er mikilvægur en ótengd hugsun eða athugun getur aldrei fyllilega hent reiður á mannlegri tilvist. Nietzsche hélt því fram að mannleg tilvist væri „viljinn til valds“, þrá eftir fullkomnun eða mikilleika. Framúrskarandi einstaklingar finna upp eigin gildi og skapa þær kringumstæður þar sem þeir skara fram úr. Hugmyndir Kierkegaards um riddara trúarinnar og Nietzsches um ofurmennið eru dæmi um þá sem skilgreina eðli eigin tilvistar.
Á grundvelli þessara hugmynda hafnar tilvistarspekin hugmyndinni um mannlegt eðli en reynir þess í stað að laða fram getu hvers og eins til að lifa raunverulega, eða með öðrum orðum er hver manneskja fær um að skilgreina og ákvarða eigið líf. Helsti málsvari tilvistarspekinnar var Jean-Paul Sartre (1905 – 1980), einkum í ritinu Vera og neind: fyrirbærafræðileg ritgerð um verufræði (L'être et le néant) (1943). Aðrir áhrifamiklir tilvistarspekingar voru Albert Camus (1913 – 1960), Simone de Beauvoir (1908 – 1986) og Karl Jaspers (1883 – 1969).
Rökgreiningarhefðin
breytaUm miðja 20. öldina var ekki ríkjandi samkomulag í Ameríku og Bretlandi um einhverja eina meginhugmynd í heimspeki, líkt og áður hafði verið en almenna heimspekilega aðferð má greina í þeirri heimspeki sem þar var stunduð á þeim tíma. Árið 1921 gaf Ludwig Wittgenstein út bókina Rökfræðileg ritgerð um heimspeki (Tractatus Logico-Philosophicus).[40] Heimspeki hversdagsmáls varð til sem viðbragð við þessari bók og var haldið á lofti af Gilbert Ryle, J.L. Austin og nokkrum öðrum. Þeir heimspekingar sem aðhylltust heimspeki hversdagsmáls áttu mörg almenn viðhorf sameiginleg með ýmsum eldri heimspekingum (til dæmis Jeremy Bentham, Ralph Waldo Emerson og John Stuart Mill) og var sá rannsóknarvettvangur sem einkenndi heimspeki í enskumælandi löndum á síðari hluta aldarinnar. Þeir gerðu ráð fyrir að gátur á einu sviði heimspekinnar væri hægt að leysa óháð gátum á öðrum sviðum heimspekinnar. Heimspekin er því ekki sameinuð heild, heldur mengi óskyldra vandamála. Meðal merkra heimspekinga sem hafa fallist á þetta almenna viðhorf að einhverju eða öllu leyti eru P.F. Strawson, Donald Davidson, Hilary Putnam, John Rawls, Noam Chomsky og meginlandsheimspekingurinn Mikhail Bakhtin.[41]
Ýmis teikn eru á lofti um að yfirvofandi sé umbreyting í heimspeki í enskumælandi löndum. Á grundvelli athugasemda um iðkun heimspekinnar sem Wittgenstein gerði í síðara stóra riti sínu, Rannsóknum í heimspeki (Philosophische Untersuchungen) (1953), þar sem hann bendir á að góð nálgun við heimspeki hljóti sjálf að vera byggð á nákvæmum athugunum á merkingu máls, hefur nýr hópur heimspekinga tekið upp á sína arma aðferðafræðilega efahyggju. Þessa verður meðal annars vart í verkum W.V.O. Quine og Wilfrids Sellars sem sameinast um náttúruhyggju, heildarhyggju (í andstöðu við megnið af því sem telst til rökgreiningarheimspeki), verkhyggju og afneitun hluthyggju í anda Platons.[42]
Rökgreiningarheimspeki og meginlandsheimspeki
breytaNútímaheimspeki, sem hófst seint á 19. öld og fram til 7. áratugar 20. aldar, einkenndist af síauknum klofningi á milli „meginlandshefðarinnar“ og „rökgreiningarhefðarinnar“ sem var ríkjandi í hinum enskumælandi heimi.
Hefðirnar virðast í grundvallaratriðum ólíkar en þó eiga þær sameinlegar rætur. Báðar hafna þær kartesísku hefðinni og raunhyggjuhefðinni sem höfðu verið ríkjandi í heimspeki síðan snemma á nýöld og hvor um sig hafnar einnig þráhyggjunni um sálfræðilegar skýringar sem lék um heimspeki hughyggjunnar.
Það sem liggur rökgreiningarhefðinni til grundvallar er það viðhorf (sem Ockham varði upphaflega) að mistök í heimspeki verði til vegna misskilnings sem stafar af tungumálinu. Við ímyndum okkur að sérhvert orð (til dæmis „skalli“, „tilvist“) samsvari einhverju í raunveruleikanum. Samkvæmt kenningum rökgreiningarheimspekinga er sönn merking venjulegrar setningar „hulin af málfræðilegu formi þeirra“ og við verðum að þýða þær á yfir á rétt form (sem nefnist rökform) til þess að skýra þær. Vandinn, sem enn er óleystur, er að ákvarða hvert hið rétta rökform hljóti að vera. Sumir heimspekingar (í kjölfarið á Gottlob Frege og Bertrand Russell) hafa fært rök fyrir því að táknmál rökfræðinnar sýni okkur rétt rökform venjulegra setninga.
Meginlandsheimspekin, í höndunum á fyrirbærafræðingum á borð við Edmund Husserl og Maurice Merleau-Ponty, þróaðist í aðra átt vegna áhuga síns á meðvitundinni. Viðhorf sem liggur þessum skóla hugsunar til grundvallar er að hugræn fyrirbæri hljóti að hafa íbyggni: Þau beinast að hlutum sem eru utan við og óháðir huganum sjálfum. Þannig er atlaga að kartesísku tvíhyggjunni um hugveru og hlutveru mikilvægt stef í fyrirbærafræði.
En þessu viðhorfi deila rökgreiningarheimspekingar. Svipuð hugmynd (en þó af öðrum uppruna) er það viðhorf sem nefnist úthyggja og John McDowell og Gareth Evans hafa haldið á lofti. Úthyggjan segir að eiginnöfn (Sókrates, George Bush) vísi beint til þeirra sem bera nöfnin og að enginn skilningur eða huglæg merking hafi milligöngu um merkingu þeirra. Hugsunin „Sókrates er vitur“ felur því Sókrates sjálfan í sér og það er engin spurning um hvort við getum í grundvallaratriðum haft á röngu að standa um tilvist ytri heims. Mistök af því tagi eru bókstaflega vitleysa. Ef spurningin er hvort Eiffelturninn eða London væri til væri merkingarbær, þá yrðum við að fallast á möguleikann á að þessi nöfn væru merkingarlaus og þar með að spurningin væri ekki merkingarbær hvort sem er. Þetta er keimlíkt þeim stefum sem meginlandshugsuðir á borð við Heidegger hugleiddu en þeir færðu rök fyrir því að hneyksli heimspekinnar væri ekki að enn væri ekki búið að sanna tilvist ytri heims, heldur að farið væri fram á slíkar sannanir og þær reyndar hvað eftir annað. Að hafa trú á raunveruleika hins ytri heims gerir ráð fyrir að til sé verund sem tilheyrir ekki heiminum. En við erum í heiminum.
Neðanmálsgreinar
breyta- ↑ Sbr. Pál Skúlason, „Heimspeki er glíma fræðilegrar hugsunar við gátur veruleikans.“ Í skjóli heimspekinnar (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1995). Sjá einnig Hauk Má Helgason. „Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki?“. Vísindavefurinn 10.10.2000. http://visindavefur.is/?id=984. (Skoðað 22.7.2011).
- ↑ Þorsteinn Gylfason, Tilraun um manninn (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1970), 31.
- ↑ Simon Blackburn, „Philosophy“ í The Oxford Dictionary of Philosophy (Oxford: Oxford University Press, 2008).
- ↑ Lord Quinton, „Philosophy“ hjá Ted Honderich (ritstj.), The Oxford Companion to Philosophy (Oxford: Oxford University Press, 2005).
- ↑ Um sögu heimspekinnar má lesa á íslensku hjá Gunnari Skirbekk og Nils Gilje, Heimspekisaga, Stefán Hjörleifsson (þýð.) (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999).
- ↑ Um fornaldarheimspeki, sjá Julia Annas, Ancient Philosophy: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2001). Ítarlegra yfirlit yfir sögu grískrar heimspeki er að finna í W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy I-VI (Cambridge: Cambridge University Press, 1962 – 1981); David Sedley (ritstj.), The Cambridge Companion to Greek and Roman Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2003); og Christopher Shields (ritstj.), The Blackwell Guide to Ancient Philosophy (Oxford: Blackwell, 2003). Sjá einnig Geir Þ. Þórarinsson, „Hver er saga grískrar heimspeki?“[óvirkur tengill]. Vísindavefurinn 19.8.2005. (Skoðað 8.12.2006), Geir Þ. Þórarinsson, „Hvenær varð grísk heimspeki til?“ Geymt 3 nóvember 2005 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 22.8.2005. (Skoðað 8.12.2006) og Geir Þ. Þórarinsson, „Hvenær var blómatími grískrar heimspeki og hvenær lauk honum?“ Geymt 8 janúar 2006 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 18.8.2005. (Skoðað 8.12.2006).
- ↑ Um forvera Sókratesar, sjá Jonathan Barnes, The Presocratic Philosophers (London: Routledge, 1979/1982) og G.S. Kirk, J.E. Raven, & M. Schofield, The Presocratic Philosophers (2. útg.) (Cambridge: Cambridge University Press, 1983). Einnig: John Burnet, Early Greek Philosophy (New York: Meridian Books, 1957); John Burnet, Before and After Socrates (Cambridge: Cambridge University Press, 1932); W.K.C. Guthrie, A History of Greek Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 1962 – 1981) og J.B. Wilbur og H.J. Allen, The Worlds of the Early Greek Philosophers (Buffalo: Prometheus Books, 1979).
- ↑ Um Sókrates, sjá Gregory Vlastos, Socrates: Ironist and Moral Philosopher (Ithaca: Cornell University Press, 1991); Gregory Vlastos (ritstj.), Socrates: A Collection of Critical Essays (University of Notra Dame Press, 1971); og Thomas C. Brickhouse og Nicholas D. Smith, Plato's Socrates (Oxford: Oxford University Press, 1994).
- ↑ Um Platon, sjá Julia Annas, Plato: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2003); Richard Kraut (ritstj.), The Cambridge Companion to Plato (Cambridge: Cambridge University Press, 1999); „Plato“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy. Einnig: Geir Þ. Þórarinsson, „Hver var Platon?“ Geymt 8 janúar 2006 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 31.8.2005. (Skoðað 8.12.2006) og Geir Þ. Þórarinsson, „Hverjar voru helstu heimspekihugmyndir Platons?“[óvirkur tengill]. Vísindavefurinn 3.11.2005. (Skoðað 8.12.2006).
- ↑ Um Aristóteles, sjá Jonathan Barnes, Aristotle: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1982/2000); J.L. Ackrill, Aristotle the Philosopher (Oxford: Clarendon Press, 1981); Jonathan Barnes, The Cambridge Companion to Aristotle (Cambridge: Cambridge University Press, 1999). Einnig: „Aristotle: General Introduction“ Geymt 8 maí 2009 í Wayback Machine hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy og Ólafur Páll Jónsson, „Hver var Aristóteles?“ Geymt 21 apríl 2005 í Wayback Machine. Vísindavefurinn 21.6.2004. (Skoðað 8.12.2006).
- ↑ Um helleníska heimspeki, sjá A.A. Long, Hellenistic Philosophy: Stoics, Epicureans, Sceptics (Los Angeles: University of California Press, 1986) og K. Algra, J. Barnes, J. Mansfeld og M. Schofield (ritstj.), The Cambridge History of Hellenistic Philosophy (Cambridge: Cambridge University Press, 2005).
- ↑ Um epikúrsima, sjá „Epicurus“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy og „Epicurus“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy. Einnig: A.A. Long, From Epicurus to Epictetus: Studies in Hellenistic and Roman Philosophy (Oxford: Oxford University Press, 2006).
- ↑ Um stóuspeki, sjá „Stoicism“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy og „Stoicism“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy. Einnig: Brad Inwwod, The Cambridge Companion to the Stoics (Cambridge: Cambridge University Press, 2003) og A.A. Long, Stoic Studies (Los Angeles: University of California Press, 2001)..
- ↑ „Stoic Ethics“ Geymt 6 maí 2009 í Wayback Machine hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ „Benedict de Spinoza“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um Ænesidemos, sjá R.J. Hankinson, The Sceptics (London: Routledge, 1995): 116-136. Í bókinni er að finna prýðilegt yfirlit yfir sögu forngrískrar efahyggju.
- ↑ Um Pyrrhon, sjá Richard Bett, Pyrrho: His Antecedents and his Legact (Oxford: Oxford University Press, 2000).
- ↑ Um Plótínos, sjá Lloyd P. Gerson (ritstj.), The Cambridge Companion to Plotinus (Cambridge: Cambridge University Press, 1996). Einnig: „Plotinus“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy og „Plotinus“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Sjá „Neoplatonism“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um áhrif grískrar efahyggju, sjá Richard Popkin, The History of Scepticism: From Savonarola to Bayle (Oxford: Oxford University Press, 2003). Um nýaldarheimspeki, sjá Roger Scruton, A Short History of Modern Philosophy (London: Routledge, 2001).
- ↑ Um Descartes, sjá Margaret D. Wilson, Descartes (London: Routledge, 1982) og John Cottingham (ritstj.), The Cambridge Companion to Descartes (Cambridge: Cambridge University Press, 2006). Einnig: „Descartes“ hjá The Internet Encyclopedia of Philosophy og Elmar Geir Unnsteinsson. „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“[óvirkur tengill]. Vísindavefurinn 15.11.2005. (Skoðað 8.12.2006).
- ↑ „Descartes' Epistemology“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um Locke, sjá John Dunn, Locke: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1984); E.J. Lowe, Locke (London: Routledge, 2005) og Vere Chappell (ritstj.), The Cambridge Companion to Locke (Cambridge: Cambridge University Press, 1994). Einnig: „John Locke“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Sjá „Rationalism vs Empiricism“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Sjá „Locke's Political Philosophy“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um stjórnspeki Hobbes, sjá „Hobbes's Moral and Political Philosophy“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.. Um heimspeki Hobbes almennt, sjá Richard Tuck, Hobbes: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 1989); Tom Sorell, Hobbes (London: Routledge, 1986) og Tom Sorell (ritstj.), The Cambridge Companion to Hobbes (Cambridge: Cambridge University Press, 1996). Einnig []
- ↑ Um Rawls, sjá Samuel Freeman (ritstj.), The Cambridge Companion to Rawls (Cambridge: Cambridge University Press, 2002)
- ↑ „Kant's Philosophical Development“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy. Sjá einnig Roger Scruton, Kant: A Very Short Introduction (Oxford: Oxford University Press, 2001) og Paul Guyer (ritstj.), The Cambridge Companion to Kant (Cambridge: Cambridge University Press, 1992).
- ↑ „Søren Kierkegaard“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ „Friedrich Nietzsche“ og „Nietzsche's Moral and Political Philosophy“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um Mill, sjá John Skorupski (ritstj.), The Cambridge Companion to Mill (Cambridge: Cambridge University Press, 1998). Einnig: „John Stuart Mill“ hjá Stanford Encyclopedia of Philosophy.
- ↑ Um siðfræði Mills má lesa hér. Um nytjastefnu almennt má lesa hér. Um siðfræði Humes er fjallað hér og hér.
- ↑ Um Peirce má lesa hér; um James má lesa hér.
- ↑ Sjá Richard Rorty, Philosophy and the Mirror of Nature (Princeton: Princeton University Press, 1981) og Consequences of Pragmatism (Minneapolis: University of Minnesota Press, 1982). Um Putnam, sjá Yemima Ben-Menahem, Hilary Putnam (Cambridge: Cambridge University Press, 2005) og Maximilian De Gaynesford, Hilary Putnam (McGill-Queen's University Press, 2006).
- ↑ Um sögu meginlandsheimspekinnar, sjá R. Kearney, Continental Philosophy in the 20th Century: Routledge History of Philosophy Volume 8 (London: Routledge, 2003). Sjá einnig Andrew Cutrofello, Continental Philosophy: A Contemporary Introduction (London: Routledge, 2005), Robert C. Solomon, Continental Philosophy since 1750: The Rise and Fall of the Self (Oxford: Oxford University Press, 1988) og Robert C. Solomon og David L. Sherman, The Blackwell Guide to Continental Philosophy (London: Blackwell, 2003).
- ↑ Um sögu rökgreiningarheimspekinnar má lesa í ítarlegu riti Scott Soames, Philosophical Analysis in the Twentieth Century, Volume 1: The Dawn of Analysis (Princeton: Princeton University Press, 2005) og Philosophical Analysis in the Twentieth Century, Volume 2: The Age of Meaning (Princeton: Princeton University Press, 2005). Sjá einnig. Prýðilegt ágrip er að finna í Thomas Baldwin, Contemporary Philosophy: Philosophy in English since 1945 (Oxford: Oxford University Press, 2001). Sjá einnig Stuart Shanker, Philosophy of Science, Logic and Mathematics in the 20th Century: Routledge History of Philosophy Volume 9 (London: Routledge, 2003) og John Canfield, Philosophy of Meaning, Knowledge and Value in the 20th Century: Routledge History of Philosophy Volume 10 (London: Routledge, 2003)
- ↑ Um heimspeki í enskumælandi löndum á frá miðri 18. öld fram á miðja 20. öld, sjá John Skorupski, English-Language Philosophy 1750 to 1945 (Oxford: Oxford University Press, 1993).
- ↑ Um Russell, sjá A.J. Ayer, Russell (Chicago: University Of Chicago Press, 1988).
- ↑ Um Freges, sjá Michael Dummett, Frege: Philosophy of Mathematics (Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1995).
- ↑ Sjá G.E.M. Anscombe, An Introduction to Wittgenstein's Tractatus: Themes in the Philosophy of Wittgenstein (South Bend: St. Augustine's Press, 1971).
- ↑ Um Strawson, sjá Clifford Brown, Peter Strawson (McGill-Queen's University Press, 2006); um Donald Davidson, sjá Marc A. Joseph, Donald Davidson (McGill-Queen's University Press, 2004).
- ↑ Um Quine, sjá Alex Orenstein, W.V. Quine (Princeton: Princeton University Press, 2002). Um Sellars, sjá Willem A. deVries, Wilfred Sellars (McGill-Queen's University Press, 2005).
Heimildir
breyta- Hugi.is - Texti er tekinn af heimspekiáhugamáli Huga.is með leyfi höfundar.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Philosophy“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 14. mars 2006.
Tengt efni
breytaFrekari fróðleikur
breytaInngangsverk
breyta- Ayer, Alfred J., The Problem of Knowledge
- Blackburn, Simon, Being Good
- Blackburn, Simon, Think!
- Blackburn, Simon, Truth: A Guide for the Perplexed
- Craig, Edward, Philosophy: A Very Short Introduction
- Gaarder, Jostein, Veröld Soffíu
- Magee, Bryan, Saga heimspekinnar
- Nagel, Thomas, What Does It All Mean? A Very Short Introduction to Philosophy
- Rachels, James, Elements of Moral Philosophy
- Russell, Bertrand The Problems of Philosophy Geymt 7 ágúst 2004 í Wayback Machine
- Scruton, Roger, A Short History of Modern Philosophy
- Searle, John, Mind, Language and Society
- Searle, John, Mind
- Skirbekk, Gunnar og Gilje, Nils, Heimspekisaga
- Solomon, Robert, The Big Questions: A Short Introduction to Philosophy
Alfræðirit
breyta- Angeles, P. A., (ritstj.), The Harper Collins Dictionary of Philosophy
- Audi, Robert (ritstj.), The Cambridge Dictionary of Philosophy
- Blackburn, Simon, The Oxford Dictionary of Philosophy
- Bunnin, N. o.fl. (ritstj.), The Blackwell Companion to Philosophy
- Copleston, Frederick, History of Philosophy (9 bindi)
- Craig, Edward og Floridi, Luciano (ritstj.), The Routledge Encyclopedia of Philosophy (10 bindi) (Einnig fáanleg á netinu í áskrift)
- Craig, Edward (ritstj.), The Concise Routledge Encyclopedia of Philosophy (Stytt útgáfa af Craig og Floridi (ritstj.))
- Honderich, Ted (ritstj.), The Oxford Companion to Philosophy
- Jones, W. T., A History of Western Philosophy (5 bindi)
- Marenbon, John (ritstj.), Routledge History of Philosophy (10 bindi)
- Mauter, T., (ritstj.), The Penguin Dictionary of Philosophy
Alfræðirit á vefnum
breytaTenglar
breyta- Heimspekistofnun Háskóla Íslands
- Siðfræðistofnun Háskóla Íslands
- „Úr frumskógi í bjarta borg“; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1968
- „Heimspeki á 17. og 18. öld“; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1968
- „Heimspeki - framtíðarvon skólakerfisins“; grein í Morgunblaðinu 1992
- „Hvernig skilgreinir maður heimspeki? Hvað er heimspeki?“. Vísindavefurinn.
- „Gengur heimspeki út á það eitt að flækja hlutina svo mikið fyrir manni að maður kaffærist í eigin svörum??“. Vísindavefurinn.
- „Hvað er frumspeki?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað er vísindaheimspeki?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað er siðferði? Og hvað er siðfræði“. Vísindavefurinn.
- „Hvenær varð grísk heimspeki til?“. Vísindavefurinn.
- „Hver er saga grískrar heimspeki?“. Vísindavefurinn.
- „Hvað er tilvistarstefna?“. Vísindavefurinn.
erlendir
- EpistemeLinks.com : philosophy resources on the internet Geymt 13 september 2017 í Wayback Machine