Aldinborg
Aldinborg
Oldenburg (þýska) | |
---|---|
Hnit: 53°08′38″N 8°12′50″A / 53.14389°N 8.21389°A | |
Land | Þýskaland |
Sambandsland | Neðra-Saxland |
Stjórnarfar | |
• Bæjarstjóri | Jürgen Krogmann[1] (SPD) |
Flatarmál | |
• Samtals | 102,96 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 4 m |
Mannfjöldi (2021) | |
• Samtals | 170.389 |
• Þéttleiki | 1.700/km2 |
Tímabelti | UTC+01:00 (CET) |
• Sumartími | UTC+02:00 (CEST) |
Póstnúmer | 26001–26135 |
Svæðisnúmer | 0441 |
Skráningarmerki | OL |
Vefsíða | www |
Aldinborg (þýska: Oldenburg, lágþýska: Ollnborg) er fjórða stærsta borg þýska sambandslandsins Neðra-Saxlands með 170 þús íbúa (2021). Borgin er staðsett norðarlega í Neðra-Saxlandi, rétt fyrir vestan Bremen. Aldinborg var lengi vel undir danskri stjórn.
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki Oldenburg er rautt borgarvirki á gulum grunni. Í hliðinu er gulur og rauður skjöldur. Það er greifaskjöldur Aldinborgar. Sagan segir að skjöldurinn eigi uppruna sinn af bardaga við ljón. Þegar ljónið var drepið, hafi Hinrik IV keisari rekið tvo fingur í ljónsblóðið og strokið þeim yfir gulan skjöld sigurvegarans. Skjaldarmerkið í heild má rekja allt aftur til 1307 en var formlega tekið upp aftur 1927.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Oldenburg hét upphaflega Aldenburg, sem er dregið af þýsku orðunum alt og burg. Það merkir Gamla borgin eða Gamli bærinn. Alden- breyttist svo í Olden- með mállýskunni. Merkilegt er að íslenska heitið, Aldinborg, er nær upphaflega heitinu en núverandi þýska heitið. [2]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Bærinn myndaðist við vað yfir ána Hunte á leiðinni frá Bremen til Jever í Austur-Fríslandi á 10. öld. Hann kemur fyrst við skjöl 1108. Oldenburg varð snemma greifadæmi og sátu greifarnir í samnefndum kastala. Bærinn óx hins vegar hægt og hlaut ekki borgarréttindi fyrr en 1345. 1448 varð Kristján greifi í Aldinborg að konungi í Danmörku og kallaði sig Kristján I. Hann var fyrsti konungur Danmerkur frá Aldinborgarætt, sem ríkti all til 1863. Borgin slapp að öllu leyti við þátttöku í 30 ára stríðinu, þökk sé greifanum Anton Günther. Þegar Tilly nálgaðist borgina með keisarahernum, tókst Günther með diplómatískum leiðum að fá Tilly til að hlífa borginni. Greifinn hafði þróað sérstakt hestakyn, Aldinborgarkynið, og gaf hann Tilly marga úrvals hesta, sem var rausnarleg gjöf. Tilly þáði þá og hélt á brott. Anton Günther lést hins vegar í pestinni 1667. Þar sem hann var barnlaus, erfði frændi hans greifadæmið, en það var Friðrik III Danakonungur. Þar með var Aldinborg orðin að danskri borg. En 1676 nær gjöreyðilagðist borgin er þrjár eldingar laust niður og brunnu flest húsin. Íbúar flykktust á brott og voru þeir aðeins 3000 í upphafi 18. aldar. 1773 eignast Holstein-Gottorp-ættin borgina, sem verður þar með að hertogadæmi. Hertoginn var þó sjaldan í Aldinborg, en hafði aðsetur sitt í borginni Slésvík. Með Vínarfundinum 1815 varð Aldinborg að stórhertogadæmi. 1918 afþakkaði síðasti stórhertoginn, Friðrik Ágúst, eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri. Aldinborg varð þá að fríríki innan Weimar-lýðveldisins. Borgin slapp við loftárásir heimstyrjaldarinnar síðari og var hluti af breska hernámssvæðinu. Henni var gert að taka við þúsundum flóttamanna og fór íbúatalan við það yfir 100 þús. 1973 var Carl von Ossietzky háskólinn stofnaður í borginni.
Viðburðir
[breyta | breyta frumkóða]Blómasýning er haldin árlega í upphafi mars. Sýningin er bæði innan- og utandyra og má þá líta á blóm, plöntur og skreytingar á samtals 16 þús m² svæði. Tugþúsundir manna sækja sýningu þessa heim.
Í júní er hátíðin Christopher Street Day (CSD) haldin, en það er hátíð samkynhneigðra.
Um sumarið eru tvennar tónlistarhátíðir: Oldenburger Promenade og Oldenburger Kultursommer. Í báðum tilfellum er um útitónleikaraðir að ræða úr mismunandi tónlistarstefnum.
Síðan 1998 hefur siglingakeppnin Waschzuber-Regatta farið fram á heimasmíðuðum þvottabölum í læknum Haaren. Þátttakendur er oftast krakkar.
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1818) Amalía frá Aldinborg, drottning Grikklands
- (1894) Otto Suhr stjórnmálamaður og fyrrverandi borgarstjóri í Berlín
- (1934) Ulrike Meinhof, hryðjuverkakona í Baader-Meinhof hringnum
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Aldinborgarkastali var reistur 1607-15 af Anton Günther greifa á stað þar sem áður var virki til verndar vaðinu yfir ána Hunte. Hann er í barokkstíl. Þegar Danir réðu yfir borginni lét konungur byggja aukaálmur við kastalann. 1817 var bókasafn innréttað í kastalanum og viðhafnarsalur smíðaður 1894. Þegar furstadæmið var lagt niður 1918, var kastalinn ónotaður. 1923 var honum því breytt í safn, en þar er nú menningar- og listasafn.
- Lappan er ein af einkennisbyggingum borgarinnar. Lappan er nafn á klukknaturni sem tilheyrði fyrrverandi spítala (Heilig-Geist-Spital) sem byggður var 1467-68 en er nú horfinn. Turninn er ein af fáum byggingum sem slapp við brunann mikla 1676. Einungis þakið skemmdist og var því breytt eftirá í viðgerðum. Í dag er ferðaskrifstofa með aðsetur í turninum.
- Púðurturninn (Pulverturm) er síðasti hluti gamla borgarvirkisins sem enn stendur. Talið er að hann hafið verið reistur 1529. Á danska tímanum var turninn notaður sem púðurgeymsla og þaðan kom núverandi heitið. Milli 1765-1900 var turninn notaður sem kæligeymsla fyrir kastalann. 1964 eignast borgin turninn, sem lét gera hann upp. Í framhaldið af því var hann friðaður. Eftir 1988 er hann af og til notaður fyrir menningarviðburði. Turninum hallar örlítið, en erfitt er að sjá hallann með berum augum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Stichwahlen zu Direktwahlen in Niedersachsen vom 26. September 2021“ (PDF). Landesamt für Statistik Niedersachsen. 13. október 2021. Afrit (PDF) af uppruna á 9. október 2022.
- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 205.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Oldenburg (Oldenburg)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.